Mark Watson dagurinn í Glaumbæ
Í tilefni af afmæli skoska aðalsmannsins Mark Watson sunnudaginn 18. júlí stendur Byggðasafn Skagfirðinga fyrir dagskrá í Glaumbæ. Watson var mikill Íslandsvinur og er honum margt að þakka, þar með talið rausnarleg peningagjöf til viðgerða á gamla torfbænum í Glaumbæ árið 1938 sem átti sinn þátt í að bærinn er enn varðveittur. Watson hefur jafnframt verið titlaður bjargvættur íslenska fjárhundakynsins og er afmælisdagur hans "Dagur íslenska fjárhundsins". Af því tilefni ætla íslenskir fjárhundar að heimsækja safnið. Hundarnir eru ljúfir og spakir og óhætt er að klappa þeim með leyfi eigenda.
Dagskráin hefst klukkan 14 og stendur til klukkan 16 síðdegis. Ungum gestum verður boðið á bak á hestum frá Syðra–Skörðugili. Klukkan 14:30 verður boðið uppá sögustund um afmælisbarn dagsins, Mark Watson.
Eigendur íslenskra fjárhunda eru hvattir sérstaklega til að líta við, en í tilefni dagsins er frítt á safnið fyrir eigendur íslenskra fjárhunda í fylgd með hundunum. Ókeypis aðgangur er fyrir börn yngri en 18 ára og við minnum lögheimilisíbúa Svf. Skagafjarðar og Akrahrepps á ársmiðann, sem gildir í eitt ár frá kaupum hans óháð fjölda heimsókna.
Opið er á kaffihúsi safnsins í Áshúsi en þar er alltaf heitt á könnunni og nýbakað góðgæti.
Verið velkomin í Glaumbæ!
/fréttatilkynning