Matgæðingur í tbl 17 - Nauta prime ribs og frönsk súkkulaðikaka

Ívar Sigurðsson,  Ingibjörg Ósk Gísladóttir ásamt börnum þeirra. Mynd: aðsend.
Ívar Sigurðsson, Ingibjörg Ósk Gísladóttir ásamt börnum þeirra. Mynd: aðsend.

Matgæðingur vikunnar í tbl 17 á þessu ári var Ívar Sigurðsson en hann er bóndi á Páfastöðum og er í sambúð með Ingibjörgu Ósk Gísladóttur sem vinnur á Eftirlæti. Saman eiga þau tvö börn, þau Diljá Mist fjögurra ára og Vestmar tveggja ára. „Er svo ekki viðeigandi að nautgripabóndinn gefi ykkur uppskrift að nauti,“ segir Ívar.

AÐALRÉTTUR
Nauta prime ribs

    2-3 kg nauta prime
    Caj P BBQ oil
    maldon salt
    grófur pipar

Kartöflur:
    1 - 1 og 1/2 kg kartöflur
    40 g smjör
    120 ml Mapel syrop

Sósan:
    40 g smjör
    10 g lerkisveppir
    400 ml rjómi
    1-2 sveppateningar
    maizenamjöl

Aðferð: Endilega takið með fyrirvara öll mál og tímasetningar því ég elda yfirleitt með skvettu hér og þar og lúkufylli af hinu og þessu, eins er það með tímann. Takið steikina úr frysti nokkrum dögum áður og leyfið kjötinu að brjóta sig í ísskápnum. Takið kjötið út og undirbúið það. Penslið eða berið á það pínu af BBQ olíu og saltið og piprið eftir smekk. Skottist með út á grillið og grillið kjötið þangað til að það nær kjarnhita upp á 50- 52°C (fer eftir hvað fólk vill hafa nautið vel eldað). Takið inn og leyfið því að hvíla í 10 mínútur. Setjið kartöflur á pönnu og steikið létt upp úr smjöri og saltið eftir smekk. Bætið því næst við Mapel sýrópi og leyfið að malla á vægum hita í 15 mínútur. Smjörsteikið lerkisveppina í potti (skemmir ekki að skvetta pínu koníaki útí og til að væta kverkarnar aðeins) og bætið því næst rjómanum út í og sveppatening. Leyfið sósunni að malla og þykkið svo með Maizenamjöli í restina.

 

EFTIRRÉTTUR
Frönsk súkkulaðikaka með saltkaramelluhjúp

    200 g dökkt súkkulaði
    200 g smjör
    200 g púðursykur
    3 stk. egg
    2 tsk. vanilluextract
    100 g hveiti
    2 msk. kakó
    örlítið salt

Aðferð: Hitið ofninn í 160° með blæstri eða 180° án blásturs. Bræðið saman súkkulaðið og smjörið við vægan hita. Takið af hitanum og látið aðeins kólna. Þeytið saman egg, púðursykur og vanillu þar til blandan verður þykk, ljós og létt. Pískið hveitið og kakóið saman í skál og hellið saman við eggjablönduna og blandið saman á hægum hraða. Hellið súkkulaðinu saman við deigið og blandið vel en varlega saman. Hellið deiginu í smjörpappírsklætt lausbotna bökunarform (um 22-24 sm, gott að nota smelluform) og bakið í um það bil 35-40 mínútur. Fylgist vel með kökunni. Hún á að vera dálítið blaut í miðjunni. Takið kökuna út og látið ná stofuhita eða kælið alveg áður en karamellan er sett yfir.

Saltkaramella:
    300 g sykur
    110 ml vatn
    150 ml rjómi
    75 g smjör
    1 tsk. sjávarsalt í flögum (eða eftir smekk)

Saltkaramelluhjúpur:
Aðferð: Hitið rjóma og smjör við vægan hita þar til smjörið bráðnar, setjið til hliðar. Setjið sykur og vatn í hreinan pott og hleypið suðunni upp við meðalháan hita, án þess að hræra. Látið sykurvatnið sjóða í 7-10 mínútur, án þess að hræra, þar til það nær 180°C. Takið þá strax af hitanum og hellið rjómanum og smjörinu saman við og hrærið. ATH ef þið eigið ekki hitamæli til að mæla sykur sjóðið þá sykurblönduna þar til hún er fallega gullinbrún, dálítið dökk. Alls ekki stíga frá pottinum, þetta þarf að vakta allan tímann svo brenni ekki. Setjið aftur á meðalhita og látið malla í 3-5 mínútur eða þar til blandan þykknar aðeins. Hrærið á meðan. Takið karamelluna af hitanum og bætið sjávarsalti saman við. Látið karamelluna ná stofuhita. Takið kælda kökuna og losið úr forminu, setjið á disk og setjið smelluhringinn aftur utan um kökuna á diskinum sem þið berið hana fram á. Hellið karamell-unni yfir kökuna og látið kólna í ísskáp í a.m.k. 2 klst. áður en hún er skorin. Stráið örlitlu sjávarsalti yfir karamelluna og berið fram eina og sér eða með þeyttum rjóma.

Uppskritin er tekin af gottimatinn.is


Verði ykkur að góðu!

Ívar skoraði á framkvæmdastjóra Knattspyrnudeildar Tindastóls, tónlistarmanninn og þann mikla meistara Sæþór Már Hinriksson. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir