Máttur þjóðsagna - Áskorandinn Bylgja Guðrún Brynjólfsdóttir Brandsstöðum

Hvað hugsar þú fyrst þegar þú heyrir orðið „þjóðsögur“? Álfar og huldufólk? Óvættir? Góður boðskapur? 
Það sem ég hugsa þegar ég heyri orðið er: „Þjóðarstolt“. Við Íslendingar erum snillingar í því að segja og semja þjóðsögur og við eigum risastórt safn af alls konar frásögnum og skáldskap, hvort sem það eru ljóðrænar frásagnir, draumkenndar eða göldrum glæddar - og svo lengi mætti telja.

Þessi ævintýraheimur þjóðsagna hefur skemmt mér síðan ég var lítið barn og hafði skilning á sögum. Það hressir ímyndunaraflið og kenndi manni að hluta til muninn á hinu góða og hinu illa.  Og gaf mér innsýn í svo margt - hvernig fólk hugsaði á öldum fyrr, hefðir forfeðra okkar, hræðslu og ekki má gleyma hinum frábæra íslenska orðaforða!

En ég hugsa oft um nútímann og sögur nútímans. Við þessi sterka þjóð höfum svo mikið til málanna að leggja, höfum farið í gegn um svo mörg tímabil sem breytt hafa þjóðinni og innsýn þjóðarinnar og ég verð að segja eins og er, ég myndi vilja sjá nýjar þjóðsögur spretta upp frá okkar einstöku, litlu þjóð, hvort sem það er skrifað um galdra, óvætti eða nýtískuleg fyrirbæri. Við gætum skrifað um Ipad-púkann, Facebook-móra, Snapchat-umskiptinginn og svo lengi mætti telja. Eða, nei annars, ég vildi frekar vilja lesa einhverjar alíslenskar frásagnir sem tengdar eru við raunveruleikann, sjá boðskap og frásagnir sem henta yngri kynslóðinni, því að börnin i samfélaginu eru það dýrmætasta sem að við eigum og við viljum auðvitað kenna þeim góðan boðskap og um hvað raunveruleikinn er svo að þeim vegni sem best í lífinu og þau eru auðvitað framtíðin!

Ég segi fyrir mig, þegar ég var barn þá hefði ég alltaf frekar viljað láta lesa fyrir mig sögur sem að voru svolítið púkalegar, í stað þess að horfa á Simpsons á skjánum hvert einasta kvöld, því að sögurnar gáfu mér sérstaka upplifun og hugsanir sem að lifa alltaf með mér. Og ég þakka fólkinu mínu fyrir það að gefa sér tíma í það að fræða mig um hitt og þetta, því að börn drekka í sig fróðleik. Ég vil hvetja alla til þess að gefa sér tíma í það að lesa svolítið af þjóðsögum eða dæmisögum fyrir börnin sín, þó að við lifum á uppteknum tímum. Að lokum læt ég hér fylgja með vísu sem að hefur alltaf verið á mjög undarlegan hátt í uppáhaldi hjá mér, því að það lýsir fornum öldum svo einstaklega vel, þó að stutt sé:

Bíum, bium, bambaló,
bambaló og dillidillidó.
Vini mínum vagga ég í ró,
en úti bíður andlit á glugga

(Höf: Jónas Árnason)

 

Ég skora á Árnýju Dögg til að vera næsti penni.

Áður birst í 36. tbl. Feykis 2018

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir