„Matur er mannsins megin“ – Sýning hjá Byggðasafni Húnvetninga og Strandamanna

Frá sýningunni á Byggðasafinu á Reykjum í Hrútafirði. MYNDIR: GR
Frá sýningunni á Byggðasafinu á Reykjum í Hrútafirði. MYNDIR: GR

Á Byggðasafni Húnvetninga og Strandamanna á Reykjum við Hrútafjörð gefur að líta all margar fastasýningar sem bregða ljósi á og miðla lífsháttum fólks fyrr á öldum. Margt af því sem í dag telst til sjálfsagðra þæginda, kallaði oftar en ekki á mikla vinnu, útsjónasemi og kunnáttu svo vel færi. Úrvinnsla og geymsla matvæla var þar veigamikill þáttur í daglegum störfum heimilianna og undirstaða lífsafkomunnar.

Á fyrri hluta ársins var sett upp sýning með fjölda þeirra íláta og áhalda sem notuð voru við matargerð og varðveislu matvæla þar sem lögð var áhersla að kynna helstu geymsluaðferðir þeirra áður en frysting kom til sögunnar, en hún gerbreytti öllu heimilishaldi.

Til að styðja við textann og auka við upplifunina voru útbúin stór veggspöld með listilegum teikningum eftir Áslaugu Jónsdóttur rithöfund og myndskreyti, en spjöldin voru hönnuð og prentuð af starfsfólki Nýprents á Sauðárkróki sem eru þekkt fyrir vönduð vinnubrögð og snjallar lausnir.

Hefur sýningin mælst vel fyrir hjá almennum gestum en auk þess nýtist hún vel í safnakennslu fyrir nemendur í skólabúðunum á Reykjum sem koma í skipulögðum hópum á safnið.

„Búrið geymir býsna margt,
bæði ker og annað þarft,
aska, diska, öskjurnar,
ámur trog og skjólurnar,
kirnur líka og kæsidallar kúra þar“
                    (Sr. Stefán Ólafson)

Þess má geta að Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna er opið frá kl. 9-17 alla daga sumars en yfir vetrartímann er opið eftir samkomulagi.

/Gunnar Rögnvaldsson

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir