Meiri endurbætur við sundlaugina á Skagaströnd en upphaflega var áætlað
Á fundi sveitarstjórnar Skagastrandar í vikunni gerði sveitarstjóri grein fyrir stöðu framkvæmda ársins og hvernig verk hafa gengið og staðist kostnaðaráætlanir. Þar kom fram að kostnaður við endurbætur á Sundlaug Skagastrandar hefur farið langt fram úr áætlun sem skýrist af því að ráðist var í mun meiri endurbætur en ráð var fyrir gert í upphafi.
Einnig standa yfir breytingar á skólahúsnæði og eru þær vel á veg komnar og gert ráð fyrir að þeim verði lokið fyrir skólabyrjun. Reiknað er með að þær fari einnig fram úr upphaflegum áætlunum en þar en um að kenna ófyrirséðum kostnaðarþáttum sem bættust við. Þá er framkvæmdum við félagslegar íbúðir við Mánabraut lokið en uppgjör hefur ekki enn farið fram, að því er fram kemur í fundargerð sveitarstjórnar.