Met slegið í útflutningi - Mikið umleikis hjá Skagafjarðarhöfnum

Mynd: Í síðustu viku var margt að gerast á höfninni á Sauðárkróki. Málmey við bryggju ásamt Vísisbátnum Fjölni sem landar vikulega á Króknum og Hoffellinu sem setti nýtt met. Úti fyrir bíður Silver Pearl eftir því að fá að landa 770 tonnum af rækju fyrir Dögun. Í forgrunni er verið að malbika og á enda sandfangara má greina vörubíl fullhlaðinn stórgrýti. Mynd: PF
Mynd: Í síðustu viku var margt að gerast á höfninni á Sauðárkróki. Málmey við bryggju ásamt Vísisbátnum Fjölni sem landar vikulega á Króknum og Hoffellinu sem setti nýtt met. Úti fyrir bíður Silver Pearl eftir því að fá að landa 770 tonnum af rækju fyrir Dögun. Í forgrunni er verið að malbika og á enda sandfangara má greina vörubíl fullhlaðinn stórgrýti. Mynd: PF

Met var slegið sl. föstudag í umfangi Skagafjarðarhafna er Hoffell, skip Samskipa, lestaði 75 gáma til útflutnings alls 1.331 tonn en aldrei áður hafa svo margir gámar né þyngd farið um borð í eitt skip áður frá Sauðárkróki. Daginn eftir fóru 19 gámar í Selfoss, flutningaskip Eimskips, alls 277 tonn.

Hvað valdi svo miklum umsvifum í miðri Covid krísu svarar Dagur Þór Baldvinsson, hafnarstjóri, því til að nú sé sláturtíð, frystitogarar að landa, Steinull að senda framleiðslu sína úr landi líkt og Dögun og Flokka að koma flokkuðu rusli til sinna kaupenda sem endurvinna það.

Að sögn Dags hefur mikið verið umleikis á höfninni og í mörg horn að líta. Frá 1. september, eða á sjö vikum, hefur 6.800 tonnum af fiski verið landað á Sauðárkróki af skipum Fisk Seafood, Brims, Vísis og á vegum rækjuverksmiðjunnar Dögunar ásamt fjölmörgum smábátum.

Framkvæmdir á hafnarsvæðinu
Ekki nóg með að met séu slegin í kóvidinu þá eru heilmiklar framkvæmdir á hafnarsvæðinu líka. „Verið er að stækka gámasvæðið og malbika, lengja sandfangara í suðausturhluta hafnarinnar og byggja upp og hækka grjótgarð austan hafnarsvæðis, allt frá sandfangara og norður að hringtorgi við útkeyrslu bæjarins.

Dagur segir það komið inn á samgönguáætlun að lengja Norðurgarðinn um 20- 30 metra í suður og þegar farið í hönnun. Samhliða því verður grjótgarðsstubburinn á garðinum fjarlægður en sá hefur verið mikill þyrnir í augum skipstjórnarmanna stóru skipanna sem efalaust eiga eftir að fagna brotthvarfi hans svo auðveldara verði að leggjast að bryggju.

Tilgangur stubbsins var að halda kyrrð í höfninni en Dagur segir að búið sé að reikna út að lenging Norðurgarðsins eigi að hafa sömu áhrif á kyrrðina þó stubbinn vanti.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir