Metmánuður hjá Klakki SK

Mokveiði var í maímánuði hjá ísfisktogarnanum Klakki SK, í eigu FISK Seafood á Sauðárkróki, en samkvæmt sjávarútvegsvefnum Sax.is var um metmánuð að ræða. Þá veiddust 366 tonn á einungis sex veiðidögum og var heildaraflinn 933 tonn en þar var þorskur aðaluppistaðan.

„Þessi mokveiði í byrjun maí var enginn bóla því togarinn mokveiddi allan mánuðinn ef litið er á landanir þá voru þær eftirfarandi og miðast dagarnir við höfn í höfn, enn togarinn var að mestu að veiðum utan við austfirðina og þangað var um 26 klukkutíma stím frá Sauðárkróki þar sem hann landaði mestum hluta aflans,“ segir á vefnum.

Landanir voru eftirfarandi:

  • löndun 1.    150 tonn eftir 5 daga,  30 tonn á dag
  • löndun 2.    63,3 tonn eftir 3 daga höfn í höfn, enn þess má geta að togarinn fékk þennan afla einungis á einum veiðidegi.
  • löndun 3.  152,4 tonn eftir 5 daga 30,5 tonn á dag.
  • löndun 4.   69 tonn eftir 3 daga höfn í höfn, 23 tonn á dag. þessi afli fékkst á einum og hálfum veiðidegi.
  • löndun 5    149 tonn eftir 4 daga 37 tonn á dag, og ef einungis er miðað við veiðidaganna þá voru þeir 3 og aflinn tæp 50 tonn á dag.
  • löndun 6   54 tonn eftir 2 daga,  27 tonn á dag.
  • löndun 7      149 tonn eftir 5 daga  tæp 30 tonn á dag.
  • löndun 8   145 tonn eftir 4 daga, 36 tonn á dag.

 „Vægast sagt ótrúlega mikill afli sem togarinn landaði og má geta þess að Kaldbakur EA sem er stærsti ísfiskstogarinn hérna á landinu kom mest með 220 tonn í einni löndun og fór einnig yfir 900 tonn því hann landaði 911 tonnum,“ segir jafnframt á vefnum.

Haft er eftir Snorra Snorrasyni skipstjóra á Klakki SK að feiknarlega mikill fiskur sé á miðunum og þegar skipið var að veiðum fyrir austurlandi þá var togað í 12 til 15 mínútur og það var nóg til að fá 6 - 9 tonn í trollið.

„Ekki var þó híft inn fyrr enn búið var að ganga frá aflanum á undan og lét því Snorri trollið hanga í sjó í allt að 2 klukkutíma á meðan verið var að ganga frá aflanum. Þetta er mikil munur frá því fyrr á árum þar sem að togað var þar til trollið var kjaftfullt og risahöl tekin um borð.“ 

Allur aflinn af Klakki SK var unnin í frystihúsinu á Sauðárkróki og gekk ansi vel að vinna aflann samkvæmt því sem segir á Sax.is því þeir tóku þar í gegnum húsið, um 30 tonn á dag.

Fleiri fréttir