Metnaðarfullt verk um ævi listamanns

Bókakápan.

Bræðurnir Elías, Sigurlaugur, Gyrðir og Nökkvi Elíassynir eru ritstjórar bókar um  Elías B. Halldórsson listmálara sem væntanleg er í nóvember. Bókin ber titilinn  - Málverk / svartlist - Paintings / Graphic Works. Hönnun bókarinnar stýrðu þeir Sigurlaugur Elíasson og Aðalsteinn S. Sigfússon.

Bókin um Elías B. Halldórsson er yfirgripsmikið verk sem unnendur listar hans munu telja happafeng. Mjög víða var leitað fanga við eftirtökur og ljósmyndun listaverka Elíasar svo bókin yrði sem sannastur vitnisurður um þennan fjölhæfa og margslungna listamann. Burðarvirki bókarinnar er að sjálfsögðu myndlist Elíasar sem kynnt er í þremur hlutum undir heitunum Maður / Náttúra - Hús / Land og Afstrakt. Umsjón með ljósmyndun verkanna hafði Nökkvi Elíasson.

Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur ritar um feril og myndlist Elíasar í grein sem nefnist Sólbræddir vængir.

Einar Falur Ingólfsson fjallar um ljóða- og bókaskreytingar Elíasar auk þess að rita formála bókarinnar.

Í bókinni er birt smásagan Gamli málarinn eftir Gyrði Elíasson.

Einn þáttur bókarinnar nefnist Viðhorf / Skoðanir en þar er tekið saman það helsta sem Elías lét hafa eftir sér um listina og tilveru listamannsins.

Í ítarlegum bókarauka er að finna margskonar upplýsingar; ævistiklur, ferilskrá, sýningayfirlit og ýmislegt fleira.

 

Ekkert var til sparað við gerð bókarinnar en hún er í stóru broti og telum um 240 blaðsíður á vönduðum pappír. Ítrustu kröfur voru gerðar, jafnt við undirbúning, ritun og myndvinnslu, prentun og frágang. Fjöldi fólks hefur lagt hönd á plóg við gerð bókarinnar og haft það að leiðarljósi að hún megi verða sem glæsilegust og bera listamanninum Elíasi B. Halldórssyni fagurt vitni.

Allur texti bókarinnar er bæði á islensku og ensku.
Allan Rettedal og Sarah Brownsberger sáu um enska þýðingu.

Fleiri fréttir