Miðasala á leikinn í Laugardalnum hafin og Skagafjöður býður í rútuferð
Það er alltaf stemmari í því að klára tímabil í sportinu á risaviðureign. Eftir töluvert basl í neðri deildum á liðnum árum er þetta þó það knattspyrnupiltarnir í liði Tindastóls fá að upplifa nú á föstudaginn þegar þeir reima á sig fótboltaskóna á föstudaginn og fá að sýna listir sínar á sjálfum þjóðarleikvangi Íslands, Laugardalsvellinum. Tilefnið er úrslitaleikur í neðrideildarbikar Fótbolta.nets.
Stólarnir spila í 3. deild en adstæðingarnir, Víkingur Ólafsvík, endaði um miðja 2. deild nú í haust. Skagfirðingar ættu þó ekki að þurfa að mæta feimnir til leiks því í þessari bráðskemmtilegu bikarkeppni hefur liðið hingað til spilað fjóra leiki, þrjá gegn andstæðingum sem eru deild ofar, og eðli málsins samkvæmt unnið alla leikina. Annars væru Stólarnir ekki í úrslitaleiknum.
Að sjálfsögðu er spenningur fyrir leiknum og nú er bara að trekkja í gang stuðningsmenn á höfuðborgarsvæðinu sem fjölmenna á liði körfunnar – nú er að mæta í Laugardalinn með gleðina að vopni og hvetja strákana til sigurs. Stólarnir eru að spila fínan fótbolta og eiga stuðning okkar skilinn.
Miðasala á leikinn hófst í hádeginu í gær og fer forsalan fram á midasala.ksi.is. Leikurinn verður einnig sýndur í beinni hjá Símanum en Feykir mælir með því að mæta á Laugardalsvöllinn – þetta er í fyrsta sinn sem meistaraflokkur Tindastóls spilar á þjóðarleikvangnum og bara alls ekkert víst að það gerist aftur!
Sveitarfélagið Skagafjörður tekur þátt í gleðinni og splæsir í rútuferð fyrir stuðningsmenn fram og til baka. Lagt verður af stað frá íþróttahúsinu á Króknum kl. 13:00 á föstudaginn en leikurinn hefst kl. 19:15 í Reykjavík. Stólagleði verður á Ölveri fyrir leik þar sem stuðningsmenn koma saman og hita upp með happy hour og Helga Sæmundi.
Þeir sem vilja tryggja sér sæti í langferðabifreiðinni skrá sig með því að senda tölvupóst á fannarorri@icloud.com. Athugið að börn yngri en 15 ára fá einungis far í fylgd með fullorðnum.
Koma svo – gerum kvöldstund í flóðljósum Laugardalsvallar ógleymanlega! Áfram Tindastóll!
Tindastólsmenn fagna í undanúrslitaleiknum gegn liði Kormáks/Hvatar sl. föstudag. MYND: SIGURÐUR INGI