Mikið að gera í snjómokstri í desember
Mikið hefur snjóað í desember og að sögn Indriða Þ. Einarssonar sviðsstjóra veitu- og framkvæmdasviðs sveitarfélagsins Skagafjarðar er ljóst að kostnaður við moksturinn mun fara fram úr áætlunum þrátt fyrir góða tíð í haust.
Indriði sagði í samtali við Feyki á Þorláksmessu að snjómoksturinn hafi gengið ágætlega en að það hefði verið nóg að gera undanfarnar 2-3 vikur og í mörg horn að líta. Þegar mest hefur verið að gera hafa tíu til tólf vélar á vegum sveitarfélagsins unnið að snjómokstri.
„Samkvæmt spám virðist veðrið ætla að vera skaplegt næstu daga og því ættu verktakar sem sinna snjómokstri að fá kærkomið frí yfir jólin,“ sagði Indriði og hefur veðrið sannarlega verið besta móti í Skagafirði yfir hátíðarnar.