Mikið fjör á Húnavöku

Myndir frá fyrirtækjadegi. Myndir: LAM
Myndir frá fyrirtækjadegi. Myndir: LAM

Húnavaka hefur farið vel af stað þetta árið þrátt fyrir mikla rigningu á köflum. Fjöldi gesta er á svæðinu og mikil stemmning. Dagskráin er mjög fjölbreytt og ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. 

Stóri fyrirtækjadagurinn var haldinn í gær en þá kynntu fyrirtæki starfsemi sína fyrir gestum á Húnavöku. Opið hús var hjá fyrirtækjum í bænum og fjöldi gesta kynntu sér starfsemina. Hoppukastalar voru fyrir börnin, boðið  var upp á grillaðar pylsur og drykki og ýmist annað góðgæti.

Meistaraflokkur Kormáks/Hvatar bauð upp á stórkostlega skemmtun á Blönduósvelli þar sem þeir tóku á móti Vatnaliljum. Leiknum lauk með sigri heimamanna 6 – 1. Fjöldi manns var á leiknum og mikil stemmning.

Risakótelettukvöld fór fram í Félagsheimilinu og um 220 manns voru mættir þangað. Fjölskylduball með Stuðlabandinu var að loknu kótelettukvöldi en Stuðlabandið var svo með dansleik í Félagsheimilinu fram á nótt. 

Nóg er um að vera á Húnavöku í dag. Fjölskylduskemmtun hefst kl. 14 við Félagsheimilið en þar verður markaðsstemmning, fígúrur úr Hvolpasveitinni mæta á svæðið, Míkróhúnninn fer fram, hoppukastalar verða í boði og margt fleira.

Eyþór Franzon Wechner organisti Blönduóskirkju verður með tónleika í kirkjunni klukkan 16. Hann verður með mjög fjölbreytt prógramm þar sem söngleikja- og kvikmyndatónlist fær að hljóma ásamt hefðbundnum orgelverkum. Aðgangseyrir er kr. 2.000 fyrir 18 ára og eldri.  

Skotfélagið Markviss verður með opinn dag þar sem gestir geta kynnt sér starfsemi félagsins. Opna Höskuldsmótið fer fram kl. 16.

Kvöldvaka með varðeldi í Fagrahvammi hefst klukkan 20:30. Lalli töframaður skemmtir, sigurvegarar í Míkróhúninum taka lagið, umhverfisverðlaun Blönduósbæjar verða afhent sem og verðlaun fyrir best skreytta húsið, Karitas Harpa söngkona tekur nokkur lög og Sverrir Bergmann og Halldór Fjallabróðir stýra brekkusöng.

Dagskránni í dag líkur svo á stórdansleik í Félagsheimilinu með hljómsveitinni Albatross.

Dagskrá Húnavöku má finna á Facebooksíðu Húnavöku.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir