Mikið tjón í Haganesvík
Mikið tjón varð í Haganesvík í gær þegar ofsaveður gekk yfir og sjór skemmdi bryggju og varnargarð.
Að sögn Haraldar Hermannssonar útgerðarmanns fór a.m.k. einn þriðji hluti af bryggjunni ýmist í hafið eða hefur sígið niður.
–Þetta var ekki góð aðkoma, segir Haraldur. Bryggjukraninn er horfinn, varnargarður sem settur var í fyrra er siginn fram og kör og drasl er út um allt. Ég gæti trúað að það hafi verið 13-14 metra ölduhæð fyrir utan. M.a. fór tuttugu feta gámur á flakk og sjór sprengdi upp hurðina á beitningaskúrnum mínum. Þess má geta að beitningaskúrinn sem Haraldur talar um er gamla pósthúsið í Haganesvík.
Haraldur segir að garðurinn muni ekki þola annað svona veður. -Það verður að byggja garðinn upp og gera hann ennþá öflugri svo hægt verði að gera út frá Haganesvík í framtíðinni annars er sjálfgefið að við færum okkur alfarið til Siglufjarðar með útgerðina, segir Haraldur.