Mikil fjölbreytni í starfi Þekkingarsetursins

Þekkingarsetrið er til húsa í Kvennaskólanum á Blönduósi. Mynd: FE
Þekkingarsetrið er til húsa í Kvennaskólanum á Blönduósi. Mynd: FE

Starfsemi Þekkingarsetursins á Blönduósi var fjölbreytt á árinu sem er að líða og fer verkefnum þess sífellt fjölgandi. Katharina A. Schneider, framkvæmdastjóri Þekkingarsetursins, lítur yfir helstu þætti í stafri ársins í pistli á vef þess nú á dögunum. 

Þekkingarsetrið var þátttakandi í átaksverkefni á sviði ferðamála ásamt Ferðamálafélagi Austur-Húnavatnssýslu,  Blönduósbæ, Húnavatnshreppi og Skagabyggð þar sem verkefni ársins voru m.a. útgáfa afrifukorts og endurútgáfa bæklingsins ,,Milli fjalls og fjöru" svo og ráðning í stöðu ferðamálafulltrúa sem hefur starfsaðstöðu í Kvennaskólanum í dag. 

Starfsmenn Þekkingarsetursins voru þátttakendur í ýmsum verkefnum, m.a. í undirbúningi Prjónagleði 2017 og einnig stýrðu þeir tilraunaverkefninu ,,Heimsókn listamanna í skóla” haustið 2017 en það verkefni var unnið í nánu samstarfi við Nes listamiðstöð og Textílsetur. Markmið þess var að efla samstarf milli listamiðstöðva og skóla á svæðinu og gefa nemendum tækifæri til að kynnast fjölbreytileika listanna frá mismunandi menningarheimum. Því verkefni lauk þann 14. desember og voru sjö skólar á svæðinu heimsóttir af hinum ýmsu listamönnum. Hægt er að lesa sér til um heimsóknirnar hér

Á árinu var lögð áhersla á þróun rannsókna og áframhaldandi uppbyggingu textíllistamiðstöðvar í Kvennaskólanum í samstarfi við Textílsetrið. Alls dvaldi 91 listamaður í Kvennaskólanum á árinu. 

Rannsóknarverkefnið „Bridging Textiles to the Digital Future", sem hlaut styrk frá Tækniþróunarsjóði Rannís hófst á árinu en það er samstarfsverkefni Þekkingarsetursins og Textílsetur Íslands. Felst það m.a. í skráningu á vefnaðarmunstrum sem tilheyra Vinum Kvennaskólans, Heimilisiðnarsafninu o.fl. í rafrænan gagnagrunn, uppsetningu vefsvæðis þar sem mynstrin verða aðgengileg fyrir textíllistamenn, hönnuði og nemendur og miðlun sérþekkingar á TC2 rafrænum vefstól sem staðsettur er í Kvennaskólanum.  

Þá komu starfsmenn setursins að útgáfu The IceView, tímarit um bókmenntir og listir en það fjallar um verk rithöfunda og listamanna sem ferðast til Íslands og hafa unnið að textíltengdum verkefnum. 

Á verkefnaskrá næsta árs kennir ýmissa grasa. Í lok apríl er stefnt að því að halda list-og menningarrástefnu á Blönduósi, Prjónagleði, hátið fyrir áhugafólk um prjón, verður haldin á Blönduósi þriðja sumarið í röð dagana 8. - 10. júní og þá munu nemendur frá Concordia háskóla í Kanada dvelja í listamiðstöðinni í júnímánuði. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir