Mikil starfsemi í Svaðastaðahöllinni

Á heimasíðu Reiðhallarinnar Svaðastaða á Sauðarkróki er búið að taka saman viðburði vetrarins frá áramótum og er óhætt að segja að það hafi verið með miklum blóma. Mörg og góð mót, kröftugt barna og unglingastarf og glæsilegar sýningar.

Veturinn byrjaði með úrtöku fyrir Meistaradeild Norðurlands (KS-deildin) þar sem 14 voru skráðir, að berjast um sjö laus sæti í deildinni. Upp úr febrúar fór sameiginlegt barna- og unglingastarf hestamannafélaga í Skagafirði af stað, þar sem um 90 börn og unglingar komu saman hálfs mánaðarlega.  Að auki var hestamannafélagið Léttfeti með æfingar tvö kvöld í hverri viku, þar sem 50 börn og unglingar mættu.

Þá fóru mótin af stað, fyrst KS-deildin (fjögur mót) með sína 18 keppendur, þá Skagfirska mótaröðin (fjögur mót), sem að jafnaði var með um 50 til 60 skráningar á hverju móti. Síðan kom að hinu margrómaða Áskorendamóti Riddarana þar sem fimm lið öttu kappi við hvert annað. Þá var komið að konunum, en haldið var Kvennatölt Norðurlands í byrjun apríl þar sem keppt var í tveimur flokkum, minna (26 skráningar) og meira vanar (20 skráningar). Tókst það með ágætum og er komið til að vera. Að lokum var haldið eitt af þremur grunnskólamótum í hestaíþróttum, sem er samstarf hestamannafélaga á Norðurlandi vestra.

Ræktun Norðurlands var haldin í annað sinn með miklum glæsibrag og síðan var Tekið til kostanna á sínum stað. Troðfull höll og sýningin með þeim allra bestu. Ungdómurinn átti svo að setja punktinn yfir i-ið, með stór sýningu Æskan og hesturinn. En vegna hósta og eða kvefpestar í hrossum varð að aflýsa þeirri sýningu þetta árið og er það miður, því búið var að æfa mikið og stefndi í flotta sýningu.

Fyrir utan allt þetta hefur hestabraut Fjölbrautarskólans verið starfandi í allan vetur með yfir 30 nemendur. Þá hefur fótbolti fengið inni yfir vetrarmánuðina og Iðja (hreifihamlaðir einstaklingar) . Auk þess hafa reiðkennarar komið og verið með einkakennslu og fyrir hópa. Þá hafa tamningamenn og annað hestaáhugafólk verið duglegt að æfa í höllinni á þeim tímum sem laust er.

Eins og sést á þessari miklu upptalningu er starfsemin ærin í reiðhöllinni Svaðastaðir og telja aðstendur hennar að óvíða sé meira um að vera í reiðhöllum landsins.

Fleiri fréttir