Aðsóknarmet í sundlaugum Skagafjarðar árið 2025
Sundlaugar Skagafjarðar nutu gríðarlegra vinsælda á árinu 2025 og var aðsókn með þeim allra bestu frá upphafi.
Gaman er að segja frá því að tvö met féllu á árinu. Alls sóttu tæplega 106 þúsund gestir laugarnar þrjár heim og er þetta í fyrsta sinn sem heildarfjöldinn fer yfir 100 þúsund. Þá sló Sundlaug Sauðárkróks eigið met með rúmlega 57 þúsund gestum, sem jafngildir 27% aukningu frá árinu 2024. Þetta kemur fram í frétt á vef Skagafjarðar.
Stækkun Sauðárkrókslaugar, sem opnaði í byrjun júlí, virðist hafa haft afgerandi áhrif á þessa tölfræði. Sé aðeins horft til mánaðanna eftir opnun jókst aðsókn um 44% milli ára sem undirstrikar að nýja aðstaðan hefur fallið í einstaklega góðan jarðveg hjá bæði heimafólki sem og gestum.
Sundlaugin á Hofsósi hélt áfram að laða að fjölda gesta og var heimsótt af rúmlega 25 þúsund manns á árinu. Þá naut Varmahlíðarlaug einnig mikillar aðsóknar og fékk tæplega 24 þúsund gesti.
Aðsóknartölurnar sýna að sundlaugarnar gegna lykilhlutverki í afþreyingu og vellíðan íbúa og gesta í Skagafirði. Ef fram heldur sem horfir gæti árið 2026 orðið enn eitt metárið.
