Mikill afli berst að landi í Skagafirði
Í Sauðárkrókshöfn er verið að landa um 140 tonnum af frystum sjávarafurðum úr frystitogaranum Örfirisey RE 4 og er uppistaða aflans ufsi. Klakkur landaði 115 tonnum s.l. mánudag.
Snurvoðabátar hafa verið iðnir við veiðar á Skagafirðinum í sumar og landað miklum afla á Sauðárkróki en flestir hafa þeir fært sig um set vegna minkandi afla undanfarið. Þó eru Hera og Eiður enn við veiðar á svæðinu. Hera kom með 5 tonn af blönduðum afla til Sauðárkróks í vikunni, en uppistaðan var ýsa ætluð til útflutnings.
Eiður landaði á Hofsósi 8.6 tonnum þar sem ýsan er einnig uppistaða aflans en hann er slægður á Hofsósi og fer í útflutning.
Línubáturinn Bíldsey gerir út frá Hofsósi og hefur fiskað vel og kom hann með 8.4 tonn að landi í vikunni og er aflinn einnig slægður þar áður en hann fer á fiskmarkað á Siglufirði.
Smábátar hafa einnig komið með fisk að landi en í vikunni kom Gammur með um 300 kg af kola að landi.
Eins og kom fram í gær landaði frystitogarinn Þerney RE-101 um 150 tonnum af frystum afurðum þar sem uppistaðan var ufsi.
Sjómenn hafa almennt verið ánægðir með aflabrögð í sumar og hafa skapað mikil verðmæti fyrir þjóðarbúið svo ekki sé minnst á tekjur til sveitarfélagsins. Þá hafa flutningafyrirtæki haft í nógu að snúast með flutning sjávarafurða milli landshluta.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.