Miklu meira fjör í 4. bindi Skagfirskra skemmtisagna

Hjá Bókaútgáfunni Hólum er komin út bókin Skagfirskar skemmtisögur 4 – Miklu meira fjör! Eins og nafnið gefur til kynna er hér á ferðinni 4. bindið með gamansögum úr Skagafirði og sem fyrr var það blaðamaðurinn og Skagfirðingurinn Björn Jóhann Björnsson sem safnaði sögunum saman. Bókunum hefur verið vel tekið um land allt og samanlagt eru sögurnar orðnar hátt í eitt þúsund talsins.

Að þessu sinni eru enn fleiri sögur af Lýtingum, Fljótamönnum, Króksurum og Blöndhlíðingum, sem og Skagamönnum, Seylhreppingum, Hofsósingum og Hjaltdælingum. Skagfirskum valkyrjum eru gerð sérstök skil. Má þar nefna Gullu í Gröf, Helgu á Silfrastöðum, Helgu Bjarna frá Frostastöðum, Diddu í Litlu-Brekku, Ásu Öfjörð og margar fleiri. Hilmir Jóhannesson, lífskúnstner á Sauðárkróki, lætur gamminn geisa. Einnig koma við sögu Óskar Pétursson frá Álftagerði, þýðandinn Helgi Hálfdanar, vörubílstjórarnir Maron Sig og Árni á Brúnastöðum, ostameistarinn Haukur Pálsson, kaupmaðurinn Bjarni Har, bankastjórinn Biggi Rafns, hrossaræktandinn Dúddi á Skörðugili, rektorinn Villi Egils og oddvitinn Agnar á Miklabæ.

Skopteikning á bókarkápu er líkt og áður eftir Andrés Andrésson. Bók fæst í öllum helstu bókaverslunum og stórmörkuðum landsins og að sjálfsögðu í heimabyggð.

/Fréttatilkynning

Fleiri fréttir