Minnihlutinn náði að knýja fram áheyrnarfulltrúa

Eftir hörð mótmæli minnihluta í sveitastjórn Skagafjarða um að fá ekki áheyrnafulltrúa í þeim fastanefndum sveitarfélagsins sem þeir eiga ekki fastan fulltrúa í gaf meirihlutinn eftir á sveitastjórnarfundi í gær þar sem lögð var fram tillaga um áheyrnarfulltrúa.

Mótmæli minnihlutans voru fyrst gerð með bókunum og síðan á þann hátt að sitja alltaf hjá í málefnum nefnda sem flokkur þeirra átti ekki neinn aðgang að.

Tillaga þeirra Bjarna Jónssonar og Stefáns Vagns Stefánssonar var eftirfarandi;

"Lagt er til að þeir flokkar eða framboðsaðilar sem fulltrúa eiga í sveitarstjórn en hafa ekki fengið kjörna nefndarmenn í eina eða fleiri fastanefndir sveitarfélagsins geti tilnefnt til eins árs áheyrnarfulltrúa ásamt varamanni til setu í þeim fastanefndum sveitarfélagsins þar sem sá flokkur eða framboðsaðili hefur ekki fengið kjörinn fulltrúa, með málfrelsi og tillögurétt. Samkvæmt þessu verði áheyrnarfulltrúar tilnefndir í skipulags- og byggingarnefnd, fræðslunefnd, atvinnu- og ferðamálanefnd, félags- og tómstundanefnd, umhverfis- og samgöngunefnd, menningar- og kynningarnefnd og landbúnaðarnefnd."

Tillagan var samþykkt samhljóða.

Fleiri fréttir