„Mjög ánægður með framför i spilamennsku liðsins“

Donni fagnar sigri síðasta haust. MYND: ÓAB
Donni fagnar sigri síðasta haust. MYND: ÓAB

Bestu deildar lið Tindastólskvenna hefur sýnt góða takta í Lengjubikarnum síðustu vikurnar en liðið spilaði fjóra leiki; tapaði venju samkvæmt gegn liðum Vals og Breiðabliks, gerði jafntefli við Fylki en lagði Selfoss að velli. „Síðasti leikurinn mun ekki spilast svo Lengjubikarinn er búinn í ár,“ tjáði Donni þjálfari blaðamanni Feykis þegar forvitnast var um hvenær síðasti leikurinn færi fram þar sem lið Keflavíkur átti að heimsækja Krókinn.

„Liðin komu sér ekki saman um leiktíma sem hentaði báðum liðum svo ákveðið var að hann verði ekki spilaður,“ sagði Donni.

Leikir Tindastóls fóru þannig að í fyrstu umferð gerðu Stólastúlkur 3-3 jafntefli við Fylki í Akraneshöllinni þar sem Elísa Bríet gerði tvö mörk, sín fyrstu í meistaraflokki, og Lara Margrét eitt en það var hennar fyrsta meistaraflokksmark með liði Tindastóls. Þá unnu Blikar 2-1 heimasigur á Stólastúlkum þar sem Elísa Bríet lagaði stöðuna seint í leiknum. Meistarar Vals mættu á Krókinn og höfðu 0-3 sigur og loks heimsóttu stelpurnar Selfoss þar sem Aldís María gerði fyrsta markið rétt fyrir hlé og Birgitta Rún skoraði fyrsta mark sitt fyrir meistaraflokk Tindastóls í 0-2 sigri. Stólastúlkum var síðan dæmdur 3-0 sigur í leiknum gegn Keflavík sem aldrei verður spilaður og endaði liðið því í þriðja sæti í riðli 1 í A-deild kvenna í Lengjubikarnum. Feykir lagði nokkrar spurningar til viðbótar fyrir Donna þjálfara.

Hefurðu verið ánægður með spilamennsku liðsins í Lengjubikarnum og er eitthvað sem hefur glatt þig sérstaklega? „Ég hef verið mjög ánægður með framför i spilamennsku liðsins með hverjum leiknum sem líður. Við höfum verið að æfa okkur i ákveðnum atriðum í uppbyggingarfasa leiksins og það hefur verið að ganga betur og betur. Margir ungir leikmenn halda áfram að stimpla sig rækilega inn ásamt því að samheldni hópsins hefur verið frábær núna í undirbúningnum,“ svarar Donni og bætir við að framundan sé æfingaferð til Campoamor á Spáni nú í byrjun apríl. „Það verður lokaundirbúningurinn fyrir Íslandsmótið sem hefst 21. apríl á heimaleik.“

Er von á frekari viðbótum við hópinn? „Við erum að skoða i kringum okkur og viljum helst bæta 1-2 leikmönnum i viðbót við hópinn. Það er ekkert öruggt þar en skýrist vonandi fljótlega.

Hafa meiðsli verið að hrjá liðið? „Hópurinn hefur verið nokkuð laus við meiðsli en svona aðeins þreyta hér og þar auk þess að vera aðeins veikar. Síðan vonumst við til þess að Hrafnhildur Björns, Bergljót Ásta og Kristrún María komi sterkar inn þegar líður á sumarið eftir sín meiðsli,“ bætir Donni við í lokin.

Þess má geta að fyrsti leikur Stólastúlkna verður gegn liði FH á Króknum sunnudaginn 21. apríl og í kjölfarið fylgir annar heimaleikur því lið Breiðabliks mætir norður laugardaginn 27. apríl. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir