Molduxar heimsóttu Garðinn hans Gústa

Spengilegir Molduxar í Garðinum hans Gústa. Frá vimstri: Árni Egils, Geir Eyjólfs, Ingimundur Guðjóns, Valbjörn Geirmunds, Sævar Hjartar, Margeir Friðriks, Valur Vals og loks Gústi Munda. MYND AF SÍÐU MOLDUXA
Spengilegir Molduxar í Garðinum hans Gústa. Frá vimstri: Árni Egils, Geir Eyjólfs, Ingimundur Guðjóns, Valbjörn Geirmunds, Sævar Hjartar, Margeir Friðriks, Valur Vals og loks Gústi Munda. MYND AF SÍÐU MOLDUXA

Um liðna helgi fór (h)eldri deild Íþróttafélags Molduxa frá Sauðákróki í skemmti- og menningarferð til Húsavíkur – ásamt Gilsbungum. Þeir kumpánar kíktu í leiðinni á Garðinn hans Gústa en garður þessi er veglegur körfuboltavöllur sem reistur hefur verið við Glerárskóla á Akureyri til minningar um Ágúst H. Guðmundsson sem segja má að hafi borið körfuboltalíf Akureyringa á herðum sér síðustu árin.

Ágúst lést nú í byrjun árs, langt fyrir aldur fram, og er Garðurinn hans Gústa verkefni sem nokkrir vinir hans standa að. Eins og segir á fésbókarsíðu verkefnisins var Gústi körfuknattleiksunnandi og markaði djúp spor í sögu íþróttarinnar áAkureyri. „Ásamt því að spila á sínum yngri árum fyrir Þór var Ágúst þjálfari hjá félaginu til fjölda ára og er sigursælasti þjálfari þess frá upphafi ... Ágúst var harður Boston Celtics aðdáandi og því lá það beinast við að körfuboltavöllurinn fengi nafnið Garðurinn en heimavöllur Boston Celtics kallast TD Garden.“

Sagt er frá heimsókn Molduxa á síðu Garðins hans Gústa og þar kemur fram að þessum miklu heiðursmönnum, Molduxum, hafi litist vel á framkvæmdina „...en Molduxar eru í hópi þeirra sem styrkt hafa þetta sannkallaða samfélagsverkefni. Kunnum við þeim miklar þakkir fyrir sem og öðrum sem látið hafa af hendi rakna og/eða lagt hönd á plóg.“

Um sjö milljónir hafa safnast fyrir Garðinn hans Gústa en markmiðið er að safna 10 milljónum. Þeir sem vilja leggja söfnuninni lið geta lagt inn á reikning en upplýsingar má sjá hér >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir