Mörg brýn úrlausnarefni á Hveravöllum
Húni segir frá því að mörg brýn úrlausnarefni eru á Hveravöllum sem þola enga bið og liggur ábyrgðin á framtíðarlausn þeirra að miklu leyti hjá opinberum aðilum. Þetta kemur fram í helstu niðurstöðum málþings um Hveravelli sem haldið var í Félagsheimilinu Húnaveri 23. október síðastliðinn. Samantekt yfir málþingið og niðurstöður hópavinnu liggja nú fyrir og er að finna í heild á vef SSNV.
20-30 þúsund manns sækir Hveravelli heim árlega
Laugardaginn 23. október síðastliðinn var haldið opið málþing um Hveravelli í Félagsheimilinu Húnaveri. Fundarboðendur voru Hveravallafélagið ehf., Húnavatnshreppur, Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og Vaxtarsamningur Norðurlands vestra. Um 40 manns sóttu málþingið.
Leiðarstef þingsins var þróun heilsársstarfsemi á Hveravöllum í átt til sjálfbærrar framtíðar með umhverfis- og náttúruvernd að leiðarljósi. Hveravellir eru friðlýst svæði samkvæmt náttúruverndarlögum. Talið er að um 20-30 þúsund manns sæki Hveravelli heim árlega og segir í samantektinni að við blasi að álagið á ýmsa lykilþætti sé umfram þolmörk. Hveravellir tilheyrir Húnavatnshreppi og sér Hveravallafélagið ehf. um rekstur svæðisins en það félag er nær alfarið í eigu sveitarfélagsins.
Brýn úrlausnarefni
Þátttakendur á málþinginu skiptu sér í þrjá hópa til að fjalla um vandamál, tækifæri og framtíðarsýn Hveravalla. Helstu niðurstöður hópanna eru þær að mörg brýn úrlausnarefni eru á Hveravöllum sem þola enga bið. Í samantektinni segir að ábyrgðin á framtíðarlausn þeirra liggi að miklu leyti hjá opinberum aðilum, en eins og aðstæður séu í dag situr Hveravallafélagið, og þar með Húnavatnshreppur, uppi með afleiðingarnar af því að uppbygging innviða á staðnum hafi engan veginn haldist í hendur við aukinn straum ferðamanna.
Mörg úrlausnarefni steðja að starfseminni á Hveravöllum og í samantektinni eru tekin dæmi; húsnæði er lítið og gamalt og þar með aðstaða til veitingarekstrar og gistingar, ekkert neysluhæft vatn er til staðar, rafmagn er framleitt með dísilvélum með tilheyrandi kostnaði, salernisaðstaða er ófullnægjandi, sorpmagn er verulegt og þarf að flytja til byggða, aðgengi og verndun hverasvæðisins er ábótavant, tjaldstæði er of lítið, óviðunandi aðstaða er fyrir landverði og annað starfsfólk og fjármagn til úrbóta er af skornum skammti.
Í samantektinni segir að mikilvægustu atriðin í þessu efni snúi að salernisþjónustu og náttúruvernd. Erfiðleikar og ágallar hafi verið og séu í allri starfsemi ríkis, sveitarfélags og rekstraraðila á Hveravöllum, hvort heldur litið sé til rekstrar salerna, landvörslu, stígagerðar, merkinga og öryggisráðstafana innan friðlandsins o.s.frv.
Best að einkaaðilar sjái um reksturinn
Það var niðurstaða hópanna að rekstur ferðaþjónustunnar á staðnum til frambúðar sé talinn best kominn í höndum einkaaðila, en eðli máls samkvæmt sé talið nauðsynlegt að opinberir aðilar komi að uppbyggingu og rekstri tiltekinna þjónustu-, verndar- og öryggisþátta, eins og segir í samantektinni.
Gildandi skipulagsáætlanir eru taldar gefa ágæta framtíðarsýn fyrir Hveravelli og vera nothæfur grundvöllur hæfilegrar uppbyggingar þó að þær þarfnist eðlilegrar endurskoðunar og renna þurfi styrkari stoðum undir þær með frekari rannsóknum.
Fram kemur að samstarf þurfi að komast á með mörgum aðilum til þess að af nauðsynlegri uppbyggingu geti orðið á Hveravöllum: ríkið, sveitarfélagið, rekstraraðili á svæðinu og ferðaþjónustuaðilar sem nýta svæðið þurfa allir að koma að málinu að því er fram kemur í samantektinni.