Mótmæli Húnvetninga í Reykjavík
Ákveðið hefur verið að afhenda ráðherrum á fimmtudag undirskriftalista með mótmælum íbúa í Austur-Húnavatnssýslu gegn niðurskurði á heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Fara á frá Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi með rútu eða bílum. Hægt er að skrá sig í ferðina á netfangið kari@krokur.is.
Undirskriftum hefur verið safnað undir mótmælaskjal þar sem áformuðum niðurskurði er mótmælt og skorað á ríkisstjórn og Alþingi að tryggja að ekki verði lögð af þjónusta á Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi eins og boðað er í fjárlagafrumvarpi næsta árs.
Húnvetningar ætla að safnast saman við heilbrigðisstofnunina kl. 12:00 á fimmtudag og aka þaðan að Alþingishúsinu þar sem undirskriftirnar verða afhentar kl. 16:00. Húnvetningar og velgjörðarmenn stofnunarinnar eru hvattir til að koma og taka þátt í friðsamlegum mótmælum.
Stöndum nú öll saman Húnvetningar og mætum á Austurvöll.
Undirbúningshópurinn.