Myndakvöld hjá Léttfeta

Ferðanefnd Léttfeta ætlar að halda myndakvöld á laugardagskvöldið næsta, þar sem farið verður yfir leyndardómsfulla atburði sem festust á filmu á Löngufjörum í sumar.

-Myndakvöldið er liður í fjáröflun vegna kaupa Léttfeta á myndvarpa, segir Víðir Sigurðsson einn nefndarmanna.
Geir Eyjólfsson er unglingaráðsfulltrúi Léttfeta og hann segir það algjört skilyrði fyrir góðu starfi að hafa „réttu græjurnar“. – Nú þegar höfum við náð að safna 1/3 hluta þeirra fjármuna sem þarf til að kaupa tækin og ég hvet alla til að koma og eiga góða stund á laugardagskvöldið.

Smári Haraldsson fararstjóri á Löngufjörum segir að dagsskrá kvöldsins verði fjölbreytt og skemmtilegt. –Við ætlum að varpa nokkuð hundruð myndum á tjald af nýja skjávarpanum einnig ætlum við að vera með skemmtiatriði og svo segi ég hátt og skýrt JÆJA þegar á þarf að halda.

Haraldur Hjálmarsson hefur tekið að sér að segja óvenjulega ferðasögu. –Já ég ætla að segja frá ferðinni í ferðina. Þ.e.a.s. frá Króknum og að Löngufjörum.

Guðný Axelsdóttir hafði það að segja að af sérstökum ástæðum þá yrði myndakvöldið haldið í anddyri Reiðhallarinnar. –Við ætlum að vera með kaffi, snakk og gos sem er innifalið í inngangseyrinum en meðferð áfengra drykkja er ekki litin hornauga né glóðurauga.

Páll formaður nefndarinnar telur að þarna verði mikið fjör og aldrei að vita nema gítarinn verði tekinn upp. –Við ætlum að rukka einn skitinn þúsundkall inn fyrir hvern fullorðinn einstakling og verðum með mynddiska einnig til sölu með mörghundruð myndum á. Páll leggur á það þunga áherslu að ALLIR eru velkomnir  og sérstaklega þeir sem komust EKKI á fjörurnar í sumar.

Fleiri fréttir