Nagaði göt á öryggisnetið á trampólíninu

Telma og Kakó uppi í sófa:) Myndir aðsendar
Telma og Kakó uppi í sófa:) Myndir aðsendar

Það er fátt mýkra en kanínur og ef þær eru til í knús þá er yndislegt að kúra með þessi dýr. En þær geta verið misjafnar þessar elskur en kanínan sem Telma Ýr í Kvistahlíðinni á Króknum á er mikið fyrir að vera nálægt mannfólkinu sínu og láta brasa með sig. Telma Ýr er dóttir Hildar Haraldsdóttur og Skarphéðins Stefánssonar og á hún eina systur, Ardísi Hebu. 

Kanínan hennar Telmu heitir því skemmtilega nafni Kakó sem á vel við því hún er fallega ljósbrún á litinn. Telma fékk hana á Víðimel í Varmahlíð og var Kakó fjögurra mánaða þegar hún kom til hennar. Það sem kemur flestum á óvart þegar þeir fá sér kanínu í fyrsta skipti er hversu frábærir persónuleikar þær eru og skemmtileg heimilisdýr. En það þarf að sjá um þessi grey eins og öll önnur gæludýr og það sem þarf að passa er að kanínuvæða heimilið/svæðið sem þær eru á. Þær eiga það nefnilega til að koma sér í vandræði ef þeim leiðist. Þær naga t.d. tölvuvíra, snúrur, húsgögn, teppi, mottur og margt fleira. Það er því góð hugmynd að vera með eitthvað af leikföngum fyrir þær til að naga eins og t.d. tómar rúllur undan salernispappír, gamlar símaskrár eða bæklinga.

Feyki langaði aðeins til að kynnast Kakó betur og sendi Telmu Ýr nokkrar spurningar.

Hvernig eignaðist þú Kakó? Ég bara tuðaði nógu mikið í mömmu minni þangað til að hún gafst upp. Við áttum einu sinni kanínu og ég saknaði þess að eiga kanínu, þær eru svo sætar. Við fengum Kakó í apríl og þá var hann frekar lítill.

Hvað er skemmtilegast og erfiðast við Kakó? Mér finnst skemmtilegast að fara út að labba með Kakó í beisli. Honum finnst líka gaman að
fara á trampólínið svo við erum stundum þar. Það er líka gaman að gefa honum gras og grænmeti og svo förum við Kakó stundum að kíkja á Sófí hjá Höllu Tomma nágranna okkar og þá verður Kakó mjög hissa, Sófí er nefnilega hundur.

Ertu með einhverja sniðuga eða merkilega sögu af Kakó? Þegar við vorum nýbúin að fá Kakó til okkar þá komst hann í netið á trampólíninu sem var
ekki búið að setja upp og hann nagaði nokkur göt á það. Hann elskar að naga og helst það sem ekki má naga. Kakó verður líka agalega spenntur þegar hann fær mat í skálina sína svo ég held stundum að hann sé hundur. 

   

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir