Námskeið í kartöfluprentun í Kvennaskólanum á Blönduósi

Um þessar mundir dvelur Mira-Liina Skyttälä, textíllistamaður frá Finnlandi, í textíllistamiðstöðinni í Kvennaskólanum á Blönduósi en hún hlaut styrk úr verkefninu Nordic-Baltic Scholarship sem Þekkingarsetrið á Blönduósi og Textílsetur Íslands standa fyrir og er hún er síðasti styrkhafi verkefnisins. Á morgun, fimmtudaginn 14. desember, heldur hún námskeið í kartöfluprentun í stúdíóinu á annarri hæð í Kvennaskólanum og verður húsið opið milli 16 og 19.
Mira-Liina mun kenna aðferð sem gengur út á það að nota kartöflur sem stimpla og prenta á fjölnota poka. Námskeiðið hentar öllum aldurshópum og er það ókeypis en börn verða þó að vera í fylgd með fullorðnum. Til staðar verða útskornar kartöflur, kartöflur til útskurðar, málning og fjölnota taupokar.
Mira-Liina Skyttälä er, eins og áður segir, textíllistamaður frá Finnlandi og á heimasíðu Þekkingarsetursins segir að hún leggi áherslu á hönnun stafrænna, prentaðra, ofins og prjónaðs efnis. Hún útskrifaðist með BA gráðu í textílhönnun frá Helsinki Metropolia University of Art and Design árið 2017. Frekari upplýsingar um Mira-Liina má finna hér - https://www.miramoi.net/
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.