Nemandanum líklega vísað úr skóla

Heimavist Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra

-Ekki fundust fíkniefni á heimavist við húsleit og er það eitt og sér mikið fagnaðarefni, segir Jón F. Hjartarson, skólameistari Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra í kjölfar fíkniefnaleitar lögreglu í húsnæði skólans í gærmorgun. Tæki til fíkniefnaneyslu fundust hjá einum nemanda.

Jón segir það alvarlegt  fyrir alla ef tæki til fíkniefnaneyslu finnast á heimavistinni. En það sé meginatriði að koma megi í veg fyrir fíkniefnaneyslu innan veggja skólans. Tilefni leitarinnar segir Jón að hún sé fastur liður í forvarnarstarfi skólans og hann sé þaklátur lögreglunni fyrir þeirra framlag. Aðspurður sagði Jón að í þessu tilfelli sé um einn nemanda að ræða og samkvæmt reglum skólans sé óheimilt að hafa tæki til fíkniefnaneyslu í húsum skólans eða á lóð. Viðkomandi nemanda verður því hugsanlega vikið af heimavist svo og úr skólanum sé um ótvíræðan vitnisburð að ræða um að hann hafi neytt fíkniefna á umráðasvæði skólans.

Er vefurinn hafði samband við nokkra nemendur skólans bar þeim öllum saman um að innan veggja heimavistarinnar væri lítill hópur nemenda sem stundaði eiturlyfjaneyslu. 

-það er erfitt fyrir foreldrafélagð að gera eitthvað í orðrómi. Það er hluti af forvörnum að fara með fíkniefnahund inni á vistina og við fögnum því samstarfi sem lögreglan á við skólayfirvöld í málinu, segir Ari Jóhann Sigurðsson, formaður foreldrafélags Fjölbrautaskólans aðspurður um aðkomu nýstofnaðs foreldrafélags að málinu.
 Munið þið eitthvað beita ykkur í málinu? -Nei, þetta er alfarið á forræði skólameistara.

Fleiri fréttir