Nemendur Höfðaskóla í heimsókn í BioPol

Nokkrir nemendanna í fullum skrúða. Mynd: Biopol.is
Nokkrir nemendanna í fullum skrúða. Mynd: Biopol.is

Á heimasíðu BioPol á Skagaströnd segir frá því að undanfarið hafi nemendur Höfðaskóla komið í heimsóknir í tengslum við náttúrufræðikennslu skólans. Undanfarið hafa krakkarnir verið að fræðast um þörunga, jafnt stóra sem smáa, en BioPol er einmitt að fást við nokkrar rannsóknir á því sviði. Krakkarnir skoðuðu ýmsa smáþörunga á rannsóknarstofunni og fengu fræðslu um fæðuvefi og flokkunarfræði.

Í Vörusmiðjunni fengu nemendur að skoða og smakka þara, til að mynda þurrkaðan beltisþara og hrossaþara, en Vörusmiðjan býr yfir öllum tækjum og tólum til að vinna verðmæti úr þessari auðlind. Ásamt því að fræðast um muninn á smáþörungum og þara var fjallað um mismunandi leiðir til að nýta þessa afurð og þekktu sumir krakkanna hvernig þarinn er notaður sem áburður á tún en einnig höfðu flestir smakkað söl og „nori“ sem notað er í sushi.

Voru krakkarnir mjög fróðleiksfúsir og áhugasamir og duglegir að spyrja skemmtilegra spurninga enda hlýtur að vera mikill fengur fyrir náttúrufræðikennsluna að eiga kost á að komast í vettvangsferð á stað sem þennan.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir