Neyðarkallinum vel tekið á NLV
Neyðarkall björgunarsveita er fjáröflun björgunarsveita landsins. Felst hún í sölu á lyklakippu með áföstum björgunarsveitarmanni eða konu. Salan fer fram fram fyrstu helgina í nóvember ár hvert um land allt og hefur almenningur tekið sölufólki afskaplega vel.
Hagnaður af sölu Neyðarkallsins rennur til björgunarsveita, slysavarnadeilda og Slysavarnafélagsins Landsbjargar og er hann notaður til að efla og styrkja starfið. Í gegnum tíðina hefur almenningur haft mikinn skilning á störfum björgunarsveita enda veit fólk að þegar neyðarkall berst bregðast þær hratt við með allan sinn mannskap, búnað, tækni og þekkingu.
Feykir hafði samband við björgunarsveitirnar á svæðinu og spurðist fyrir um hvernig salan gekk í ár. Hjá björgunarsveitinni Húnum gekk salan vel og viðtökur voru mjög góðar. Þar hafa þegar selst fleiri Neyðarkallar en undanfarin ár og ennþá er hægt að kaupa þá með því að leggja inn á reikning 0159-26-1530 kt 700307-0930 kr 2.000 og er hann þá sendur í pósti til baka.
Hjá björgunarfélaginu Blöndu voru viðtökur einnig mjög góðar. Salan stóð frá fimmtudegi til sunnudags og var gegnið í hús á Blönduósi, ásamt því að selja í Samkaupum. Ennþá er til eitthvað af Neyðarköllum hjá sveitinni og er hægt að nálgast þá með því að senda tölvupóst á bfblanda@simnet.is eða hafa samband gegnum fésbókarsíðu.
Björgunarsveitin Grettir í Skagafirði seldi Neyðarkallinn í Fljótum, Hofsósi, Hjaltadal, Viðvíkursveit og austanverðu Hegranesi á fimmtudaginn og föstudaginn í síðustu viku. Salan gekk vel og segja þeir flesta taka vel í hana og vilja koma á framfæri þakklæti fyrir stuðninginn. Enn er hægt að kaupa Neyðarkalla með því að hafa samband við Ingvar í síma 8619803.
Flugbjörgunarsveitin í Varmahlíð seldi Neyðarkallinn í Varmahlíð og nágrenni á þriðjudagskvöld. Þeir sem misstu af björgunarsveitarmönnum þar geta nálgast hann hjá Þorsteini í síma 893 1981. „Gekk alveg glimrandi vel og seldum nánast það sem til var,“ sagði Þorsteinn í samtali við Feyki.
Sömu sögu er að segja hjá Skagfirðingasveit, sem gekk í hús á Sauðárkróki og seldi Neyðarkallinn í Skagfirðingabúð. Þar seldist allur lagerinn og segja meðlimir sveitarinnar að þeim sé alltaf vel tekið.