Njarðvík hafði betur gegn Stólunum í framlengdum leik sl. föstudag

Pétur í leiknum á móti Njarðvík. Mynd tekin af facebook-síðu Körfuknattleiksdeildar Tindastóls.
Pétur í leiknum á móti Njarðvík. Mynd tekin af facebook-síðu Körfuknattleiksdeildar Tindastóls.

Á föstudaginn var, 17. nóvember, brunuðu Stólastrákar til Njarðvíkur í Ljónagryfjuna þar sem spilaður var hörkuleikur sem endaði í framlengingu þar sem Njarðvík vann leikinn 101-97. Stólastrákar spiluðu án Sigtryggs Arnars, David Geks og Hannes Inga. Pétur var ekki í byrjunarliðinu að þessu sinni en gaman var að sjá að Callum Lawson og Ragnar Ágústsson stigu upp í leiknum og voru með þeim stigahæstu.

Tindastóll byrjaði leikinn mun betur og náði að komast í 2-10 eftir fimm mínútna leik en þá setti Njarðvík í gír og brunuðu áfram. Tindastóll skoraði ekki körfu síðustu fjórar mínúturnar af leikhlutanum sem endaði 12-12. Annar leikhluti var jafn og skemmtilegur eða alveg þangað til að tvær mínútur voru eftir og staðan 30-31 fyrir Tindastól. En þá tók Njarðvík yfir leikinn sem endaði á því að skora 17 stig á móti 11 hjá Tindastól og staðan því 39-33 fyrir Njarðvík fyrir hálfleik. Í þriðja leikhluta náði Tindastóll að saxa niður forskotið í þrjú stig, þegar minnst var, en leikhlutinn var pínu upp og niður sem endaði á því að bæði liðin skoruð 28 stig hvor og staðan því 67-61 fyrir Njarðvík fyrir síðasta leikhlutann. Eitthvað hafa Stólastrákar tekið sig á fyrir þann fjórða því þeir náðu að jafna leikinn í 88-88 eftir venjulegan leiktíma og því framlenging staðreynd. Í framlengingunni náði Njarðvík hins vegar rétt svo að merja þetta með fjórum stigum. Lokatölur 101-97.

Í liði Tindastóls var Callum Lawson stigahæstur með 28 stig en á eftir honum var Þórir Þorbjarnarson með 19 stig, Drungilas og Ragnar voru með 17 stig hvor, Pétur með 12 stig, Veigar með þrjú stig og Orri með eitt stig.

Næsti leikur hjá strákunum er á fimmtudag 23. nóvember kl. 19:15 þegar þeir taka á móti Haukum í Síkinu.

Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir