Njarðvíkingar lagðir í Síkinu

Tindastóll og Njarðvík mættust í ágætum körfuboltaleik síðastliðið föstudagskvöld en þetta var síðari leikur Tindastóls í riðlakeppni Lengjubikarsins. Leikurinn var lengstum jafn og spennandi þó svo að Stólarnir hafi ávallt verið skrefinu á undan gestunum. Lokatölur urðu 76-69.

Leikurinn fór ágætlega af stað. Njarðvíkingar komust yfir í eina skiptið í leiknum, 9-10, en Viðar Ágústsson og Darrel Lewis gerðu næstu körfur leiksins fyrir Stólana og staðan 20-17 að loknum fyrsta leikhluta. Í öðrum leikhluta náðu Stólarnir upp fínni vörn og þá var sóknarleikur gestanna í molum. Stólarnir voru skárri í sókninni en gestirnir gerðu aðeins eina körfu á fyrstu sjö mínútum leikhlutans. Í hálfleik var staðan 37-27.

Njarðvíkingar komu beittari til leiks eftir hlé en Stólarnir svöruðu að bragði og bættu í frekar en hitt. Darrel Lewis átti glimrandi leik og fann alltaf leið að körfu gestanna ef á þurfti að halda. Tindastóll komst í 51-35 um miðjan leikhlutann en þegar þriðja leikhluta lauk munaði enn 10 stigum, staðan 58-48. Fjórði leikhluti einkenndist af því að heimamenn reyndu að halda niðri hraðanum og koma í veg fyrir að Logi Gunnarsson finndi fjölina sína of rækilega. Munurinn hélst á bilinu sjö til tólf stig og á endanum landaði Lewis sigrinum fyrir Stólana, en hann gerði síðustu sex stig liðsins.

Að sjálfsögðu var haustbragur á leik liðanna. Myron Dempsey spilaði fyrsta leikinn með Tindastóli og átti ágætan leik, gerði 14 stig og tók 17 fráköst. Darrel Lewis var stigahæstur með 26 stig. Logi Gunnarsson var stigahæstur gestanna með 21 stig.

Styrkleiki Stólanna lá í fráköstunum í þessum leik en liðið tók 54 fráköst á meðan Njarðvíkingar tóku aðeins 30. Öll þessi fráköst skiluðu líka góðum körfum í teignum. Njarðvíkingar voru hins seigari utan 3ja stiga línunnar, voru skotglaðir og tóku 30 3ja stiga skot og settu 10 niður. Leikmenn Tindastóls áttu hinsvegar 17 tilraunir fyrir utan en hittu aðeins tvisvar.

Það er ljóst að Tindastólsmenn eru komnir í 8 liða úrslit í Lengjubikarnum en ekki er ljóst hver andstæðingurinn verður. Leikdagur er áætlaður 23. september. Og ef einhver er að velta fyrir sér hversu marga erlenda leikmenn Tindastólsmenn mega nota í vetur þá er svarið; einn. Bæði Flake og Lewis eru íslenskir ríkisborgarar og Dempsey því eini „kaninn“ í liðinu.

Stig Tindastóls: Lewis 26, Flake 16, Dempsey 14, Helgi Rafn 8, Pétur 7, Helgi Margeirs 3 og Viðar 2.

Fleiri fréttir