Njarðvíkingar sigruðu Tindastól eftir framlengdan spennuleik
Tindastólsmenn urðu að bíta í það súra epli í kvöld að tapa æsispennandi leik gegn Njarðvíkingum í Síkinu og það eftir framlengdan leik. Stólarnir voru fimm stigum yfir í hléi en að loknum venjulegum leiktíma var jafnt, 82-82, og því þurfti að framlengja og þá reyndist heimamönnum dýrkeypt að Helgi Rafn og Þröstur voru úr leik með 5 villur hvor. Lokatölur urðu 98-103 fyrir Njarðvík.
Njarðvíkingar hafa verið að spila vel frá áramótum og unnið marga góða sigra. Það var því aldrei líklegt að Stólarnir færu að valta yfir þá og það var skarð fyrir skildi að Tarick Johnson var ekki með. Njarðvíkingar byrjuðu betur og sérstaklega var guttinn Elvar Már Friðriksson öflugur. Gestirnir komust í 6-15 en næstu tíu stig gerðu Tindastólsmenn og leikurinn einkenndist af miklum sveiflum framan af. Að loknum fyrsta leikhluta var staðan 20-24 fyrir Njarðvík og þeir bættu við forskotið fyrstu mínútur annars leikhluta, náðu aftur níu stiga forystu, 27-36, en þá settu Helgi Freyr og Drew Gibson niður tvo þrista með skömmu millibili og Valentine minnkaði muninn í eitt stig. Pétur Birgis kom Stólunum síðan yfir 43-40 með 3ja stiga skoti og fram að hléi höfðu heimamenn yfirhöndina. Njarðvíkingar spiluðu hratt og reyndu gríðarlega mikið af 3ja stiga skotum en hittu illa í öðrum leikhluta. Þröstur Leó gerði glæsilega 3ja stiga körfu og kom Stólunum í 51-44 en fékk stuttu síðar á sig villu og í framhaldinu tæknivillu sem var hans fjórða villa. Staðan í hálfleik 51-46.
Það var stál í stál í þriðja leikhluta og lítið skorað framan. Þegar um sex mínútur voru liðnar jafnaði Marcus Van leikinn fyrir Njarðvík, 57-57, en Stólarnir voru sterkari síðustu mínúturnar og fóru inn í fjórða leikhluta sex stigum yfir, 66-60. Tindastóll náði mest níu stiga forystu snemma í fjórða leikhluta, 71-62, en þá fór allt í baklás og gestirnir gerðu næstu 11 stig og komust yfir þegar rúmar fimm mínútur voru eftir. Þá voru Ágúst Orrason og Hjörtur Hrafn Einarsson farnir að finna körfuna utan 3ja stiga línunnar en sömuleiðis var Nigel Moore drjúgur. Þegar þrjár mínútur voru eftir fékk Helgi Rafn sína fimmtu villu, sennilega dæmdi Röggi dómari á hann skutlu, og þá var nokkuð síðan Þröstur Leó hafði líka yfirgefið völlinn með fimm villur. Það var því orðinn nokkuð þunnur þrettándinn hjá Stólunum. Nú var leikurinn gríðarlega spennandi og jafnt á flestum tölum, 75-75, 77-77, 79-79, og í lokin 82-82 en það var lið Tindastóls sem átti boltann í lokasókninni en skot Drew Gibsons geigaði í lokin.
Svabbi og Drew Gibson héldu lífinu í Stólunum í framlengingunni en það voru gestirnir sem voru skrefinu framar og leikmenn Tindastóls gerðu sig seka um að missa boltann klaufalega. Njarðvík var yfir 94-99 þegar innan við mínúta var eftir en Helgi Margeirs setti niður eitt víti og síðan truflaðan þrist skömmu síðar og minnkaði muninn í 98-99. Nú urðu hemamenn hinsvegar að taka til við að brjóta á gestunum og þá helst Marcus Van sem virtist gera margt betur en taka vítaskot. Það dugði þó ekki til og Njarðvíkingar lönduðu sigri, 98-103.
Tindastóll er því enn í bullandi fallhættu en á sama tíma í baráttu um sæti í úrslitakeppninni. Nú hafa tveir leikir í röð tapast með naumindum en eftir viku spila Tindastólsmenn við ÍR í Hertz-höllinni og það gæti orðið hreinn úrslitaleikur um sæti í deildinni. Það er því stutt á milli hláturs og gráturs í boltanum en ekkert annað að gera en bíta á jaxlinn og mæta ljóngrimmir í næsta leik.
Í kvöld átti Drew Gibson fínan leik, gerði 25 stig og átti 16 stoðsendingar. Valentine var með 22 stig og reif niður 16 fráköst. Þá steig Svabbi upp og setti 14 stig. Liðin tóku álíka mörg fráköst en Stólarnir settu niður 12 þrista í 26 skotum en Njarðvíkingar 13 í 39 skotum. Athygli vekur að Tindastóll fékk aðeins 12 vítaskot í leiknum (6/12) en Njarðvík fékk 37 vítastkot (26/37) og víst að ekki voru heimamenn alltaf sáttir við dómaratríóið í kvöld
Síðasti heimaleikur tímabilsins verður 17. mars en þá mætir topplið Grindavíkur í Síkið.
Stig Tindastóls: Gibson 25, Valentine 22, Svabbi 14, Helgi Rafn 11, Helgi Freyr 10, Hreinsi 7, Pétur Rafn 6 og Þröstur Leó 3.