Ný hljómplata Atónal blús fær afbragðs dóma

Jónas Sen gefur Höfuðsynd, hljómplötu Atónal blús, fjórar stjörnur af fimm mögulegum í gagnrýni sinni sem birt var á vef Vísis.is í dag og segir hana vera „tilraun sem svo sannarlega virkar“. Það er Skagfirðingurinn Gestur Guðnason sem annast laga- og textasmíð fyrir hljómsveitina en hann er jafnframt söngvari sveitarinnar.

„Ný plata, Höfuðsynd með hljómsveitinni Atónal blús, kemur á óvart. Fyrsta lagið, sem líka heitir Atónal blús og er eingöngu instrúmentalt, er skemmtilega viðburðaríkt. Þó að nokkrir hljóðfæraleikarar komi við sögu, er yfirbragðið rafrænt. Sumir sem fást við að semja slíka tónlist eiga það til að detta í endurtekningarnar, en ekki hér. Hljómurinn er framandi á einhvern hátt sem erfitt er að skilgreina með orðum, fólk verður einfaldlega að hlusta. Atburðarrásin er hröð, það er alltaf eitthvað að gerast í tónlistinni. Þetta er magnað lag,“ segir Jónas í gagnrýni sinni og heldur áfram:

„Svipaða sögu er að segja um þegar söngurinn dettur inn í næsta lagi. Lög og textar eru eftir Gest Guðnason og það er hann sem syngur líka. Hann hefur þægilega, afslappaða rödd sem fellur ágætlega að stemningu hvers lags.

Platan er mixuð af mikilli fagmennsku, hún er tær og söngurinn er ekki of hávær á kostnað hljóðfæraleiksins. Það gerist stundum og er ákaflega hvimleitt. Hér er söngurinn fyrst og fremst eitt af hljóðfærunum.“

Hann kemst að þeirri niðurstöðu að platan sé skemmtilega litrík og innblásin en hér má lesa gagnrýnina í heild sinni.

 

Fleiri fréttir