Ný rennibraut vígð í sundlauginni í Varmahlíð

Unnur María Gunnarsdóttir fór vígslubununa í gær og svo fylgdi hópur af krökkum á eftir og allir skemmtu sér vel. Myndir: PF.
Unnur María Gunnarsdóttir fór vígslubununa í gær og svo fylgdi hópur af krökkum á eftir og allir skemmtu sér vel. Myndir: PF.

Það var gleðisvipur á andlitum gesta sundlaugarinnar í Varmahlíð í gær enda langþráðum áfanga náð hjá Skagfirðingum þegar rennibrautin í sundlauginni í Varmahlíð var formlega vígð. Um er að ræða fyrstu alvöru rennibrautina sem sett hefur verið upp í héraðinu þrátt fyrir fjölda sundlauga víðs vegar um fjörðinn.

Það voru þau Sigfús I. Sigfússon, sveitarstjóri Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Hrefna Jóhannesdóttir, oddviti Akrahrepps, sem klipptu á borða og Unnur María Gunnarsdóttir, nemandi við Varmahlíðarskóla, vígði svo brautina með fyrstu ferð eftir borðaklippingu.

„Það er trú mín að þessi framkvæmd verði samfélaginu hér og Skagafirði öllum til heilla og skiptir máli upp á búsetuskilyrði og þetta skiptir máli fyrir ferðaþjónustuna. Rennibrautin sjálf blasir við og auglýsir sig á hólnum,“  sagði Sigfús Ingi og bætti við að fólk væri komið í ríflega sjö metra hæð í efstu tröppu rennibrautar.

„Það skiptir máli fyrir okkur öll að hafa svona mannvirki í sveitarfélaginu. Þetta stuðlar að auknum fjölskyldusamvistum og líka að því að við séum dugleg að rækta bæði kropp og sál, annaðhvort ein eða í samvistum við aðra. Það hefur ríkt mikil tilhlökkun alveg frá því áform um þessa rennibraut urðu kunn og er því ánægjulegt að hún sé tilbúin og að við séum að vígja hana hér í dag,“ sagði Hrefna kampakát í tilefni dagsins.

Unnið er að því að hafa hafa lengri opnunartíma sundlaugarinnar, í það minnsta fram að áramótum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir