Ný sýning, Foldarskart, opnuð í Heimilisiðnaðarsafninu á laugardag

Eitt verkanna á sýningunni. Mynd:FE
Eitt verkanna á sýningunni. Mynd:FE

Það var mikið umleikis í Heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi þegar blaðamaður Feykis leit þar við fyrir skemmstu. Verið var að setja upp nýja sérsýningu í safninu en eins og margir vita er ævinlega opnuð ný sýning í safninu á hverju vori. „Við köllum þessar sýningar Sumarsýningar Heimilisiðnaðarsafnsins og það er svo skemmtilegt að margt heimafólk bíður spennt eftir að sjá hvaða sýning verður opnuð að vori,” sagði Elín Sigurðardóttir, forstöðumaður safnsins, en sýningin verður opnuð laugardaginn 2. júní kl. 14:00 og eru allir velkomnir að vera við opnunina.

Listakonan Louise Harris ásamt Aðalsteini Ingólfssyni listfræðingi við undirbúning sýningarinnar. Mynd:FE

Sýningin mun bera heitið “Foldarskart”  og er það listakonan Louise Harris sem hefur unnið öll verkin sem nú eru sýnd í fyrsta sinn. Aðalsteinn Ingólfsson, listfræðingur, er Louise til aðstoðar við uppsetningu sýningarinnar. Louise hefur búið á Íslandi á annan áratug og er tengd Íslandi fjölskylduböndum. Hún er menntuð úr tveimur helstu listaskólum Bretlands og hefur haldið sýningar á risastórum vatnslitamyndum um kvenímyndir tískuiðnaðarins. Hún starfar nú sem myndmenntarkennari við Myndlistaskóla Reykjavíkur og Landakotsskóla. Hér er það íslenska ullin sem á hug hennar allan þar sem hún nýtir sér einkum þelið og þæfir eins konar teikningar inn í myndflötinn. Um er að ræða nokkuð stórar myndir en einnig þrívíðar einingar sem hún sýnir í plexíglerkössum.

„Enn á ný erum við að auka við fjölbreytileika í sýningarflóru Heimilisiðnaðarsafnsins og gefa listafólki möguleika á að sýna list sína," segir Elín. "Með þessu erum við meðal annars að veita safngestum nýja og fjölbreytta sýn á íslenska handiðn og hvernig hægt er að tengja hana á mismunandi hátt við safnmuni fortíðar."

Heimilisiðnaðarsafnið er opið alla daga frá 1. júní til 31. ágúst frá kl. 10:00 – 17:00 og á öðrum tímum ársins eftir sérstöku samkomulagi. 

Nánar má lesa um sýninguna á vefnum Fullveldi Íslands

Fleiri fréttir