Ný útgáfa af Vatnsdæla sögu
Vatnsdæla saga er nú komin út í nýrri útgáfu hjá Bókaútgáfunni Merkjalæk. Sagan er gefin út með nútima stafsetningu og einnig er ýmsum orðmyndum breytt til nútímahorfs. Guðráður B. Jóhannsson myndskreytti bókina og gerði bókarkápu en hana prýða myndir af fresku sem Baltasar málaði á veggi Húnavallaskóla.
Á Húna.is segir að áhugi á sögunni hafi aukist eftir að farið var að sauma Vatnsdælarefilinn hjá Textílsetrinu á Blönduósi. Sagan er væntanleg í sölu hjá Textílsetrinu á Blönduósi og í versluninni Hitt og þetta handverk, Aðalgötu 8 á Blönduósi. Bókina má einnig nálgast hjá útgefanda (sighp46@gmail.com, s. 8923215).
Bókaútgáfan Merkjalækur er til heimilis á Merkjalæk í Svínadal í A-Hún. Það eru Sigurður H. Pétursson, fyrrum héraðsdýralæknir í A-Hún til 30 ára, og kona hans Ragnhildur Þórðardóttir sem eiga og reka útgáfuna.
Úr formála bókarinnar:
Vatnsdæla saga er skrifuð á 13. öld, að talið er. Hún er ættarsaga Hofverja í Vatnsdal. Sagan hefst úti í Noregi líklega á árunum 820-830 og segir fyrst frá Katli raum í Raumsdal. Ketill var afi Ingimundar gamla sem kom með miklu fylgdarliði til Íslands, fyrir eða um 900, nam land í Vatnsdal og bjó á Hofi. Sögunni lýkur með dauða Þorkels kröflu á fyrri hluta 11. aldar.
Vatnsdæla saga hefur oft verið gefin út, fyrst 1812. Við þessa útgáfu er stuðst við ýmsar eldri útgáfur. Sagan er hér gefin út með nútíma stafsetningu og auk þess er ýmsum orðmyndum breytt til nútímahorfs. Er það gert til að gera söguna aðgengilegri og léttari aflestrar. Tilgangurinn er fyrst og fremst að leyfa sögunni, sem slíkri, að njóta sín.
Skipting sögunnar í kafla er sú sama og hefð hefur komist á í eldri útgáfum. Kaflaheiti hefur undirritaður samið.
Þegar þetta er ritað er saumaskapur á Vatnsdælarefli í Textílsetrinu á Blönduósi kominn vel á veg. Það hefur vakið áhuga þeirra, sem að saumaskapnum hafa komið, að kynnast sjálfri sögunni betur og er þessari útgáfu m.a. ætlað að koma til móts við þann áhuga.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.