Nýr getraunaleikur Hvatar hefst á laugardaginn kemur
Nýr getraunaleikur hefst laugardaginn 23. október á skrifstofu Hvatar (fyrir ofan Samkaup). Opið verður á skrifstofunni á laugardaginn frá kl. 11:00 – 13:00 og að sjálfsögðu verður heitt á könnunni.
Fyrir þá sem ekki vita þá er þetta léttur og skemmtilegur leikur sem allir geta tekið þátt í, einnig er þetta kjörið tækifæri til að hittast og spjalla um daginn og veginn á laugardögum áður en maður skellir sér í steikina eða nýju sundlaugina.
Á Hvatarskrifstofunni verður hægt að fá upplýsingar um getraunaleikinn, skrá sig til leiks og tippa á 13 rétta. Leikurinn stendur yfir í 14 vikur (næstu 14 laugardaga) og er tippað á enska seðilinn. Hver hópur sendir inn tvær raðir á þar til gerða getraunaseðla sem Hvöt úthlutar, en hver röð er með 7 leikjum sem eru með einu merki og 6 leikjum með tveimur merkjum.
Hægt er að nálgast þessa seðla á www.hvotfc.is undir leikvikur, eða á skrifstofu félagsins. Einnig er einfalt að taka þátt í leiknum í gegnum netið fyrir þá sem ekki komast á laugardögum. Hægt er að senda inn raðirnar á 1x2hvot@gmail.com fyrir lokun á laugardögum.
Þátttökugjald er 5000 kr eða 2500 kr á mann og er allur peningurinn sem kemur inn af þátttökugjaldinu notaður í sjálfan leikinn þ.e.a.s. kaffi og meðlæti á laugardögum, uppskeruhátíð og verðlaun.
Í undanförnum getraunaleikjum hafa verið þátttakendur víðsvegar af landinu. Rétt er að taka fram að mjög einfalt er að taka þátt í leiknum og hefur reynslan sýnt það að þátttakendur þurfa ekki að vera neinir spekingar í getraunum eða miklir áhugamenn um knattspyrnu til að ná góðum árangri. Síðast tóku um 50 tipparar þátt í leiknum og voru þátttakendur á öllum aldri og af báðum kynjum. Nánari upplýsingar er að finna á www.hvotfc.is, í síma 899-5676 (Óli Ben), 848-0037 (Auðunn) eða senda inn fyrirspurnir á netfangið okkar 1x2hvot@gmail.com.
/hvotfc.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.