Nýr slökkviliðsstjóri ráðinn til Brunavarna A-Húnavatnssýslu

Ingvar Sigurðsson. Aðsend mynd.
Ingvar Sigurðsson. Aðsend mynd.

Stjórn Brunavarna Austur-Húnavatnssýslu hefur ráðið Ingvar Sigurðsson sem slökkviliðsstjóra Brunavarna Austur-Húnavatnssýslu og mun hann hefja störf, í fullu starfi, eigi síðar en 1. maí 2019. Ingvar er löggiltur slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður og hefur starfað í tæp tíu ár sem hlutastarfandi slökkviliðsmaður hjá Brunavörnum Árnessýslu, eða frá árinu 2009, en starfar núna sem einn af fjórum vakthafandi varðstjórum slökkviliðsins og sinnir þar bakvöktum og þjálfun. Einnig hefur hann starfað við sjúkraflutninga hjá HSu.

Í fréttatilkynningu frá Brunavörnum Austur-Húnavatnssýslu segir að Ingvar hafi  aflað sér leiðbeinendaréttinda tengt starfi sínu í slökkviliðinu, þar á meðal sé hann leiðbeinandi í skyndihjálp, notkun hitamyndavéla og hurðarrofstækni. Hann hefur farið á fjölda námskeiða hjá Brunamálaskólanum, þar á meðal þjálfunarstjóra- og stjórnendanámskeið ásamt því að sækja stjórnendanámskeið hjá Endurmenntun HÍ. Þá er hann menntaður fangavörður og starfaði sem slíkur í rúm sjö ár á Litla-Hrauni en starfar nú sem varðstjóri í fangelsinu á Hólmsheiði. Einnig er hann menntaður lögreglumaður frá Lögregluskóla ríkisins og starfaði sem slíkur í um tvö ár hjá Lögreglustjóranum á Suðurlandi. 

Ingvar hefur starfað við ýmis félagsstörf. Hann er formaður félags slökkviliðsmanna Árnessýslu, hefur verið í fagdeild slökkviliðsmanna hjá Landsambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS), situr í ritnefnd LSS og hefur meðal annars skrifað greinar í fréttablöð LSS „Slökkviliðsmanninn“ og „Á vakt fyrir Ísland“. 

Stjórn Brunavarna A-Húnavatnssýslu fagnar ráðningu Ingvars í starf slökkviliðsstjóra og hlakkar til þess að vinna með hönum að frekari uppbyggingu í þessum mikilvæga málaflokki og að auknu samstarfi á svæðinu.

Fleiri fréttir