Nýsköpun sem drifkraftur | Freyja Rut Emilsdóttir skrifar
Nýsköpun er ekki bara orð til að nota á tyllidögum og í kosningabaráttu, nýsköpun er drifkraftur framþróunar, hvort sem það er í litlum fyrirtækjum á landsbyggðinni eða stórum alþjóðlegum fyrirtækjasamsteypum. Nýsköpun opnar nýjar leiðir, skapar ný störf, eykur hagkvæmni og gerir okkur – bæði sem einstaklinga og samfélög, betur í stakk búin til að takast á við þær áskoranir sem blasa við, grípa þau tækifæri sem bjóðast og skapa ný. Fyrirtæki og samfélög sem fóstra og næra nýsköpunarhugsun og nýsköpunarverkefni eru lykillinn að sjálfbærum vexti, bættum lífsgæðum og framþróun sama hvaða atvinnugreinar horft er til.
Nýsköpunarvikan á Íslandi fer fram dagana 12.-16.maí og er tilgangur hennar að vekja athygli á fjölbreyttum hliðum nýsköpunar þvert á atvinnugreinar með ýmsum uppákomum og viðburðum. Fyrirtækjum, frumkvöðlum, fjárfestum og öllu áhugafólki um nýsköpun standa ýmis tækifæri til boða, til tengslamyndunar, lærdóms og innblásturs. Hér er kjörið tækifæri til að kynnast spennandi hugmyndum og verkefnum, læra af reynslu annarra og sækja innblástur til að forma og móta sínar eigin hugmyndir.
Í þessari viku, dagana 8-9. maí halda Færeyingar nýsköpunarhátíðina TONIK og hefur Sýndarveruleika ehf verið boðið að taka þátt í þeirri hátíð og kynna þau nýsköpunarverkefni sem fyrirtækið hefur unnið að, einkum á framsýnni notkun sýndarveruleikatækni til miðlunar á sagnaarfi Íslendinga. Það er mikill heiður að vera boðið á hátíð sem þessa og staðfesting á því að það öfluga og metnaðarfulla nýsköpunarstarf sem unnið er innan fyrirtækisins vekur athygli bæði innanlands og utan.
Í menningararfinum er að finna rætur okkar og það er þar sem svörin liggja við því hver við erum og úr hvaða jarðvegi við, sem samfélag, sprettum. Hún liggur í mannlegu eðli þessi þörf okkar til að rekja ræturnar, skilja samhengi sögunnar og tengja saman fortíð, nútíð og framtíð. Hringrás menningararfsins snýst um að njóta, skilja, meta og annast. Með því að njóta sögunnar á jafn raunverulegan hátt og gagnvirkni sýndarveruleikans býður uppá, kynnast helstu sögupersónum og upplifa atburðina við hlið þeirra, skapast löngun til að fræðast meira, heyra meira og skilja meira. Með því að öðlast skilning á sögunni verður sagan metin að verðleikum og þannig skapast dýpri löngun til að njóta fleiri og fjölbreyttari menningarafurða.
Þegar við sameinum krafta nýsköpunar, tækni og menningararfs með það fyrir augum að dýpka skilning á arfleifðinni verður sagan metin að verðleikum og því fylgir að framboð á tæknivæddum miðlunarupplifunum eykst. Þannig skapist dýpri löngun til að njóta fleiri og fjölbreyttari menningarafurða og afleidd störf innan tækni- og menningargeirans verði til. Með notkun stafrænnar tækni til að miðla sögum og sagnaarfi til yngri kynslóða þá kveikjum við á þessari hringrás menningararfsins, þar sem við erum að nálgast tæknivædda kynslóð á hennar forsendum.
Íslendingar voru eitt sinn sagnaritarar konunga um alla Norður Evrópu og við trúum því að við getum vel verið það aftur, frá skinnum í pappír og bækur, að kvikmyndagerð og næsta skref í sagnamiðlun er blandaður veruleiki og fjölbreytt stafræn tækni.
Þetta er spennandi tími fyrir fjölbreytta nýsköpun, sem atvinnu- og samfélagsþróun, og við hér á Norðurlandi getum sannarlega átt okkar þátt í þeirri þróun.
Freyja Rut Emilsdóttir
framkvæmdastjóri 1238 á Sauðárkróki