Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda ( NKG )

Vinnusmiðja NKG2010 verður haldin fimmtudaginn 16. sept. og föstudaginn 17. sept. frá kl. 09.00-16.00. Afrakstur vinnusmiðjunnar mun verða uppi á verðlaunahátíð NKG.

Sunnudaginn 19. september verður verðlaunahátíð NKG í húsakynnum Marel í Garðabæ. Dagskrá hefst stundvíslega kl. 15.00 þar sem Forseti Íslands hr. Ólafur Ragnar Grímsson verndari keppninnar afhendir verðlaun. Þátttakendur munu sjálfir kynna hugmyndir sínar fyrir gestum.

Mennta- og menningarmálaráðherra flytur hátíðarræðu, afhendir viðurkenningar og afkastamesti grunnskólinn hlýtur farandbikar.

Keppnin í ár

NKG er verkefni sem hvetur til nýsköpunarkennslu í grunnskólum. NKG er keppni sem fram allan ársins hring með uppskeru á haustin. Eftir strangt matsferli komust 46 hugmyndasmiðir áfram í úrslit. Í ár eru innsendar hugmyndir rúmlega 1600 talsins frá 45 grunnskólum. Í vinnusmiðjuna mæta 46 hugmyndasmiðir á aldrinum 8-15 ára. Hugmyndir þeirra voru metnar með tilliti til raunsæi, hagnýti og nýnæmi. Það telst mikill heiður að komast í vinnusmiðjuna.

Hugmyndasmiðir útfæra hugmynd sína nánar undir leiðsögn leiðbeinenda í vinnusmiðju NGK. Í ár verður í fyrsta skipti boðið uppá að vinna frumgerðir í gegnum tölvufræsara.

Skemmtigarðurinn Grafarvogi hefur undanfarin ár boðið öllum þátttakendum vinnusmiðju frítt í garðinn, í ár skellir hópurinn sér að loknum vinnudegi í ævintýra minigólf.

Vinsamlegast hafið samband við Önnu Þóru í síma 6150574 ef áhugi er fyrir viðtölum við þátttakendur í keppninni eða annarri frásögn.

NÁNAR UM NKG

Markmið NKG er að gera einstaklingnum grein fyrir sköpunargáfu sinni og þroska hana í gegnum vinnu með eigin hugmyndir. NKG er mikilvæg hvatning til nemenda og kennara í starfi sínu í þeirri nýsköpunarmennt sem fer fram innan grunnskóla landsins.

Keppnin var haldin í fyrsta skipti árið 1991. Starfið fer fram allt árið um kring. Á haustin hefst nýtt keppnistímabil, sem lýkur á vorin þegar matsferli fer fram.

Ekki er ætlast til þess að þátttakendur hafi tæknilega kunnáttu til þess að fullkomna hugmyndir sínar. Lögð er áhersla á að þjálfa þátttakendur í ferlinu að fá hugmynd, að hanna og framkvæma. Þannig að seinna í lífinu þegar tæknileg kunnátta er til staðar, og lausnarmiðaðar hugmyndir kvikna, þá munu þessir nemendur búa að góðum grunni til framkvæmda.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir