Akureyringarnir koma!

Það er leikur í kvöld. Grannar okkar frá Akureyri, lið Þórs/KA, mæta á Krókinn og spila við Stólastúlkur í Bestu deildinni en þetta er fyrsti leikur liðanna að loknu EM fríi. „Leikirnir við Þ/K undanfarin ár hafa verið mjög skemmtilegir og spennandi oft á tíðum. Síðustu tvö ár höfum við gert jafntefli hér á heimavelli á móti þeim svo við vonumst til að geta breytt því í sigur í dag,“ sagði Donni þjálfari þegar Feykir spurði hann út í viðureignina.
„Annars er Þór/KA klárlega eitt besta lið deildarinnar og er skipað mjög góðum leikmönnum í öllum stöðum svo þetta verður erfiður leikur, það er klárt mál. En við erum mjög jákvæð og spennt og hlökkum til að byrja deildina aftur.“
Hvernig er dagur þjálfarans á leikdegi? „Ég byrja daginn í kringum 8:30 við að koma börnunum mínum á æfingar. Og skutla og sækja vaktin mín byrjar þar, sem er ekkert nema gaman. Ég nota daginn mikið til þess að hugsa um leikinn og mismunandi atburðarásir sem gætu mögulega komið upp og þá hvað væri best að gera þar til að hjálpa liðinu. Ég tek stöðuna á nokkrum leikmönnum sem eru til dæmis tæpar vegna meiðsla eða veikinda. Heyri stundum frá sjúkraþjálfurunum ef það er eitthvað sérstakt í gangi þar. Ég og Konni tölum mikið saman og samræmum hvernig við viljum bregðast við atvikum sem gætu komið upp. Borða vel og hreyfi mig aðeins ef ég hef tíma í það. Við þjálfarateymið mætum svo ca 2 og hálfum tíma fyrir leik og erum saman uppá þekju að spjalla, setja inn skýrsluna og njóta stundarinnar fyrir leikinn. Klukkutíma fyrir leik fer ég inn i klefa til leikmanna og við förum yfir leikinn saman. Svo fer ég aftur upp á þekju í ca 5-10 mín lögn/íhugun. Svo út að hitta stelpurnar og sjónvarpsviðtal fyrir leik svona 30 mín fyrir leikinn. Leikurinn tekinn á fullu gasi með leikmönnum og öllu teyminu. Svo eftir leik er maður oftast frekar þreyttur svo þá er góður tími að vera með dásamlegu fjölskyldunni minni.“
Hvernig er staðan á liðinu og hvernig fannst þér EM fríið? „Að fá EM fríið fannst mér alveg frábært fyrir okkur öll. Hins vegar er þetta alveg öðruvísi upplifun að koma aftur saman eftir pásu og það er mjög langt síðan við spiluðum leik, svo það má ætla að það gæti tekið smá tíma að fínpússa hlutina upp á nýtt og finna taktinn aftur. Það eru flestir leikmenn klárir, við misstum Sögu út vegna meiðsla og Kristrún ætlar að taka sér pásu frá fótbolta og það munar um þær sannarlega. Aldís er ekki alveg tilbúin og Laufey er langt komin en ekki orðin 100% svo vonandi styttist í þær. En aðrar eru nokkuð ferskar.“
Stefnirðu á að styrkja hópinn í glugganum? „Það er ekkert orðið öruggt ennþá með viðbætur en ég vonast til að við getum fengið eina stelpu að láni út tímabilið strax í næsta leik og svo vonandi eina erlenda líka út tímabilið fyrir næsta leik en það stendur ennþá á því að finna fyrir hana vinnu hér í firðinum. Leikurinn í dag verður síðasti leikur Snæfríðar með okkur en hún hefur komið frábærlega inn í þetta hjá okkur í sumar. Svo með henni erum við þá að missa þrjá leikmenn út hjá okkur úr okkar þó þunna hópi svo það væri frábært að fá tvo leikmenn inn í staðinn ef hægt væri,“ segir Donni að lokum.
Leikurinn hefst kl. 18:00 og aðstæður ættu að vera frábærar – það er reiknað með 16 stiga hita og andvara af suðri. Allir á völlinn og áfram Tindastóll!