Nýtt fjós á Hóli í Sæmundarhlíð - Myndir
Á laugardaginn var boðið til opnunar á nýju fjósi að Hóli í Sæmundarhlíð í Skagafirði. Ábúendur eru þau Jón Grétarsson og Hrefna Hafsteinsdóttir. Bygging fjóssins hófst sl. vor og í því eru legubásar fyrir 72 mjólkurkýr, auk þess sem legubásar eru fyrir kvígur.
Um 400 manns heimsóttu nýja fjósið og voru margir þeirra langt að komnir, en færð og veður með besta móti á þessum árstíma. Boðið var upp á léttar veitingar og gafst gestum kostur á að skoða aðstöðuna sem er öll hin glæsilegasta.
Í fjósinu er mikill tæknibúnaður og kemur hann allur frá fyrirtækinu DeLaval, en fjósið er jafnframt sýningarfjós fyrir fyrirtækið. Um er að ræða mjaltaþjón, mjólkurtank, fóðurkerfi, kjarnfóðurbása, fjórsköfuþjark, sjálfvirkan kúabursta, innréttingar og básadýnur.
Að sögn Jóns og Hrefnu er um mikla byltingu að ræða í aðstöðu frá gamla fjósinu, en þar voru 30 mjólkandi kýr. Þau hafa því keypt kvígur í uppeldi til að fylla upp í hið nýja fjós, þar sem reiknað er með 72 mjólkurkúm þegar það verður komið í fullan rekstur.
Aðspurður um hvort hann gæti farið í jakkafötin og sest við tölvuna sagði Jón það ekki alveg svo einfalt. Þrátt fyrir að tæknin stýri mjöltum og fóðrun þarf ennþá mannshöndin að koma nærri, m.a. hvað varðar þrif. Auk þess krefst allur þessi tæknibúnaður mikils eftirlits.
Ekki hafði reynt á mjaltaþjóninn þegar blaðamann bara að garði á laugardaginn. Til stóð að mjólkurkýrnar fengju tveggja sólarhringa aðlögun áður en að til þess kæmi, en aðrir nautgripir voru komnir í fjós þegar á laugardaginn og virtust láta sér vel líka.