Nýtt gistiheimili tekur til starfa á Skagaströnd
Nýtt gistiheimili, Salthús, verður formlega opnað á Skagaströnd á föstudaginn kemur. Er það staðsett nyrst í bænum, á Einbúastíg 3, með útsýni yfir Húnaflóann til suðurs og norðurs en í austri er fjallasýn þar sem Spákonukonufellið ber hæst. Hrafnanes ehf. er eigandi hússins en Salthús gistiheimili ehf. mun sjá um rekstur gistiheimilisins. Framkvæmdastjóri þess er Hrafnhildur Sigurðardóttir.
Húsnæði Salthúss var byggt árið 1950 af Skagstrendingi hf.í þeim tilgangi að hýsa ýmsa starfsemi fyrirtækisins. Á heimasíðu gistihússins segir: „Efri hæðin var notuð fyrir beitingamenn, og sem geymsla fyrir ýmsan veiðibúnað. Síðar var litlum frystiklefa bætt við, til að frysta beitu. Á jarðhæð var upphaflega saltfiskverkun, og skreið pakkað fyrir útflutning. Á síðari árum var starfrækt vélaverkstæði frystihússins á Skagaströnd á jarðhæðinni. Vélsmiðurinn Pétur Eggertsson fór fyrir fjórum vélvirkjum og viðgerðarmönnum, sem höfðu viðurnefnið „Pétur og úlfarnir“ meðal heimamanna."
Það var svo árið 2016 sem Hrafnanes ehf. keypti húsið og í framhaldi af því var hafist handa við að teikna breytingar á húsinu. Það annaðist Þorgils Magnússon, byggingartæknifræðingur á Blönduósi, og í ársbyrjun 2017 voru byggingarstjóri og trésmíðameistari frá Tveimur smiðum á Hvammstanga ráðnir til starfa ásamt iðnaðarmönnum frá Skagaströnd og Blönduósi. Í mars 2017 keypti Hólanes ehf., fyrirtæki Skagstrendinga sem stofnað var um byggingu hótels á Skagaströnd, hlutabréf í Hrafnanesi. Framkvæmdir við húsið hófust í febrúar á síðasta ári og má sjá fjölda mynda frá uppbyggingunni á Facebooksíðunni Salthús Guesthouse Skagaströnd.
Salthús gistiheimili er á tveimur hæðum og býður upp á fjórtán vel útbúin herbergi með sturtu, salerni og vaski. Þar er einnig sameiginleg eldhúsaðstaða á hvorri hæð. Nú þegar hafa fyrstu gestirnir dvalið í húsinu, bæði íslenskir og erlendir, en formleg opnun verður föstudaginn 26. janúar klukkan 17-19 þegar eigandi hússins, Hrafnanes ehf., mun afhenda Salthúsi gistiheimili húsið formlega til rekstrar.
Allir eru velkomnir á opnunina á föstudaginn.
Heimasíða gistiheimilisins er www.salthus.is og Facebooksíðan er Salthús Guesthouse Skagaströnd.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.