Nýtt námsmatskerfi í Árskóla
Foreldrar barna í 2. – 10. bekk Árskóla fengu í vikunni bréf varðandi leiðsagnarmat haustannar 2008. Bréfið var sent heim með elsta barni þar sem um fleiri en eitt barn á heimili var að ræða. Í bréfinu eru útskýringar og leiðbeiningar varðandi leiðsagnarmatið sem fram fer í gegnum Mentor, annars vegar með sjálfsmati nemenda með aðstoð foreldra og hins vegar með mati kennara.
Á heimasíðu skólans segir að síðastliðin tvö ár hafi verið unnið töluvert að því að þróa fjölbreyttari aðferðir við námsmat í Árskóla og hafi kennarar sótt ýmis námskeið um fjölbreyttar matsaðferðir. Markmiðið sé fyrst og fremst að auka fjölbreytni námsmatsins og jafnframt gera matið einstaklingsmiðaðra með minni áherslu á hefðbundin próf og kannanir.
Ákveðið hefur verið að námsmat haustannar í 2. – 10. bekk verði í formi leiðsagnarmats sem fram fer rafrænt í gegnum Mentor, þar sem annars vegar nemandinn, ásamt foreldri/forráðamanni, metur sig og hins vegar kennarinn metur nemandann. Leiðsagnarmatið verður síðan notað sem umræðugrundvöllur í foreldraviðtali þriðjudaginn 11. nóvember.