Óbreytt verð til bænda

Þann 13. ágúst ákvað stjórn SAH Afurða verð fyrir sauðfjárafurðir og  varð niðurstaðan sú að greiða sama verð og á síðastliðnu ári, að frádregnu geymslugjaldi að upphæð 39 kr. Einnig var ákveðið að hafa verð nokkuð mismunandi eftir vikum og er það hæst í upphafi sláturtíðar, en fer svo lækkandi.

Á heimasíðu félagsins segir að ekki séu forsendur til verðhækkanna, þar sem verð á innanlandsmarkað hefur lækkað og erlendir markaðir eru mjög ótryggir vegna mikillar gengisóvissu.

Til að koma á móts við heimavinnslu bænda var ákveðið að verð fyrir heimtöku verði kr. 2.500 + vsk á skrokk, og gildir það bæði fyrir fullorðið fé og dilka. Gjaldið innifelur frystingu, sögun og frágang, en ekki sendingarkostnað.

Ákveðið var að bjóða uppá tvo valkosti þegar að greiðslu afurða kemur. Í fyrsta lagi að hafa sama hátt á og verið hefur, þ.e. 100% staðgreiðsla föstudag eftir innleggsviku. Í öðru lagi býðst innleggjendum 75% greiðsla á föstudegi eftir innleggsviku og að fá 25% þann 1. mars 2010. Þeir sem velja þennan kost fá greitt álag á allt innleggið, og verður það kynnt í næsta fréttabréfi SAH Afurða.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir