OK, api Allt í lagi

Þessa dagana sýnir Króksarinn Jóhannes Atli Hinriksson í sýningarsal Kling & Bang Marshallhúsinu við Grandagarð í Reykjavík fyrir sunnan. Jói er sprenglærður listamaður með próf frá School of Visual Arts í Nýju Jórvíkur-hreppi. Sýningin ber hið hið ágæta nafn, OK, api Allt í lagi og opnaði þann 26. ágúst síðastliðinn.
Um listamanninn segir á síðu Kling & Bang: „Bilið milli sköpunar og eyðileggingar er stutt í verkum Jóhannesar Atla Hinrikssonar. Efniviðurinn ... gæti hæglega orðið til þess að verkum hans væri óvart hent í ruslið. Enda hefur ekki verið ásetningur listamannsins að draga fram fegurðina í ódýru hraáefni þrátt fyrir að ljóst sé að hvað sem er gæti orðið fórnarlömb sköpunar.“
List Jóhannesar Atla vakti athygli eftir að hann lauk námi í New York 2005 og hélt hann einkasýningar í New York (Kantor Gallery/LFL og Haswellediger & Co.), Zurich (Haas & Fischer) og Kaupmannahöfn (V1 Gallery) auk þess sem hann tók þátt í þónokkrum samsýningum, meðal annars sýningunni Nr.1 Umhverfing á Sauðárkróki í sumar. „Síðustu árin hefur listamaðurinn búið í sjálfskipaðri útlegð á Norðurlandi og unnið að myndlist í bílskúrum og vinnustofum sem engum hefur verið boðið að skoða. OK api Allt í lagi, er fyrsta einkasýning Jóhannesar Atla frá árinu 2009 en fyrri sýningar hans í Reykjavík hafa meðal annars verið í Kling & Bang og í D sal Listasafns Reykjavíkur.“
Það er heiður að fá að sýna hjá Kling & Bang í hinu glæsilega Marshallhúsi og allir sem hafa gaman af að njóta lista og láta koma sér á óvart, ættu að líta í heimsókn. OK,api Allt í lagi er opin miðvikudaga til sunnudaga frá 12 - 18 og fimmtudaga til kl. 21. Sýningin stendur til 24. september.
Feykis- og Nýprentsfólk óskar sínum gamla góða vinnufélaga til lukku með sýninguna.