Óli Arnar næsti ritstjóri Feykis

Óli Arnar og Palli Friðriks stilla sér upp í myndatöku en eins og sést eru þeir vanari að vera bak við myndavélina. Mynd: Klara Björk.
Óli Arnar og Palli Friðriks stilla sér upp í myndatöku en eins og sést eru þeir vanari að vera bak við myndavélina. Mynd: Klara Björk.

Breytingar verða á ritstjórn Feykis, svæðisfréttablaði Norðurlands vestra, þegar Óli Arnar Brynjarsson tekur við ritstjórastarfinu þann fyrsta ágúst nk. af Páli Friðrikssyni, sem gegnt hefur því embætti í tíu ár samanlagt. Ekki þurfti langt að leita að eftirmanni Páls því Óli Arnar hefur starfað hjá Nýprenti í 18 ár og unnið að einu eða öðru leyti við Feyki í tæp 20 ár.

„Það er áskorun að taka við sem ritstjóri Feykis en ég reikna með að það verði engar stórvægilegar breytingar á blaðinu við þessi tímamót. Að minnsta kosti hefur umsjónarmaður vísnaþáttarins lofað að halda sínu starfi áfram og stefnir ótrauður á 900. þáttinn,“ segir Óli Arnar sem hefur verið viðloðandi fjölmiðlun frá árinu 2000 þegar hann og Pétur Ingi Björnsson störtuðu heimasíðunni Skagafjörður.com. „Sú ágæta síða rann síðan saman við Feyki.is sem hóf sína vegferð 2008 og fagnar því 15 ára afmæli í haust.“

Óli hefur að mestu unnið við uppsetningu og hönnun á Nýprenti meðfram því að skrifa íþróttafréttir og einnig haldið utan um nokkra fasta þætti í Feyki í gegnum árin. Skrifin hafa svo undið nokkuð upp á sig síðari árin, sérstaklega eftir að fækkað var um eitt starfsgildi á Feyki. Nú er hins vegar í skoðun að ráða inn blaðamann til að deila álaginu við að halda úti héraðsfréttamiðli bæði í föstu og flæðandi formi.

Palli skiptir um starfsvettvang

„Hér læt ég staðar numið, í bili a.m.k. Ég hef starfað á Feyki í samtals þrettán ár og það var aldrei ætlunin hjá mér að klára starfsævina þar. Ég er menntaður í matvælageiranum og held á þau mið aftur en nú hjá Mjólkursamlagi KS. Mig langar til að þakka lesendum Feykis fyrir samstarf og velvild þessi ár mín á blaðinu og hvet alla til að taka vel á móti nýjum ritstjóra. Blaðið á bjarta framtíð fyrir sér ef lesendur halda áfram tryggð við Feyki,“ segir fráfarandi ritstjóri.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir