Ólíkir tónlistarheimar mætast á ferðalagi um landið

MYND AÐSEND
MYND AÐSEND

Marína Ósk kemur úr heimi djass og Ragnar Ólafsson úr rokki. Þau leggja nú saman af stað í tónleikaferðalag saman um allt land 16.-28. apríl. Þau kynntust í Húsi máls og menningar, þar sem þau spila flest kvöld vikunnar fyrir fullu húsi. Semja nú saman söngvaskáldatónlist og gáfu meðal annars út lagið Er kólna fer ekki alls fyrir löngu. Þau heimsækja Gránu á Sauðárkróki á morgun – miðvikudaginn 17.apríl og hefjast tónleikarnir kl.20.30.

Í apríl munu söngvaskáldin Marína Ósk og Ragnar Ólafsson leiða hesta sína saman og spila á tónleikum um allt land. Marína Ósk og Ragnar hafa bæði komið komið víða við í íslensku tónlistarlífi og saman spanna þau vítt litróf tónlistarstefna.

Á tónleikaröðinni í apríl munu þau flytja saman tónlist hvors annars. Ragnar og Marína koma með ólík verk á sviðið en sameinast í heimi frásagna og einlægni. Þau tjá sig á ólíkan hátt í gegnum tónlist og hafa eigin stíl, og því einstök tónleikaupplifun í vændum.

Með þeim á ferðalaginu verður gítarleikarinn og pródúsentinn Kjartan Baldursson. Saman myndar þríeykið hljómsveit sem sjá mun um allan tónlistarflutning á ferðalaginu. Þess má einnig geta að bæði Marína og Ragnar vinna um þessar mundir að sólóplötu, í samstarfi við Kjartan.

Marína Ósk hefur þrætt jazzhátíðir í Evrópu og eignast dygga hlustendur um allan heim og er með mikla mánaðarlega hlustun á Spotify. Hún hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin 2023 fyrir tónverk ársins í djassflokki og er orðin leiðandi afl á íslensku djasssenunni.

Ragnar hefur gefið út um 30 plötur á ferlinum og er þekktastur sem stofnmeðlimur hljómsveitarinnar Árstíða, sem hefur ferðast um meira en 30 lönd í þremur heimsálfum og urðu heimsfrægir fyrir flutning sinn á laginu Heyr, himna smiður á lestarstöð í Þýskalandi. Þá hefur Ragnar einnig leikið með rokksveitum á borð við Sign og Sólstafi og látið til sín taka í heimi kvikmynda og sjónvarps. Hann var á síðasta ári tilnefndur til Edduverðlaunanna fyrir tónlistina í þáttaröðinni Vitjanir.

Þau koma úr ólíku umhverfi tónlistarlega séð, en með þeim tókst vinskapur og listræn samvinna á Húsi máls og menningar, sem hefur nú leitt af sér útgáfu lags og tónleikaferðalag um landið allt, með 14 tónleikum á ólíkum viðburðastöðum, jafnt kirkjum sem börum.

Föstudaginn 22. mars, kom út lagið Er kólna fer, sem þau sömdu saman. Lagið er í kántrískotnum söngvaskáldastíl og gefur góða mynd af því sem tónleikagestir geta átt von á á tónleikaferðalaginu í næsta mánuði. Tónleikaferðalag þeirra um Ísland mun eiga fara fram milli 16. og 28. apríl.

Marína og Ragnar spila vikulega í hinu sögufræga Húsi máls og menningar á Laugavegi í Reykjavík og mynda burðarstoðir hljómsveitarinnar The Bookstore Band, sem leikur þar öll kvöld vikunnar fyrir fullu húsi. Bandið samanstendur af tónlistarmönnum úr ýmsum áttum og er orðinn suðupottur tónlistar og uppspretta skapandi samstarfs, eins og samstarf Marínu og Ragnars er dæmi um.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir