Ólöglegar veiða í Norðurá í Skagafirði
Svo virðist sem veiðiþjófar hafi óvart komið upp um sig þegar birt var frétt af mikilli veiði í Norðurá í Skagafirði á vefnum Vötn og veiði fyrir skömmu. Veiddu á verndarsvæði.
Í fréttinni segir frá því að veiðisölumaður hafi farið í Norðurá í Skagafirði með erlendann veiðimann en sá hafði aldrei veitt bleikju áður og veiddu þeir það vel að þeir tilkynntu um að Norðuráin væri gjörsamlega pökkuð af bleikju. Voru teknar myndir til að fanga augnablikið og fylgdu þær fréttinni.
Kári Gunnarsson kenndur við Flatartungu áttaði sig á því þegar hann sá umrædda frétt að þeir væru staddir á svæði sem hefur verið friðað fyrir veiði í sumar og lét þá á Vötn og veiði vita. Kári sagði að haft hafi verið samband við viðkomandi veiðimann og viðurkenndi hann að hafa keyrt fram hjá skilti sem bendir mönnum á að þeir séu á fiskverndarsvæði. Veiðiþjófnaður hefur verið mikið vandamál þarna í sumar, segir Kári og eftir umrædda frétt hafi veiðiþjófar verið á þessu svæði flesta daga og koma óorði á þann mikla meirihluta veiðimanna sem eru til fyrirmyndar.
Smári Haraldsson veiðieftirlitsmaður í Skagafirði staðfesti að mikið væri um veiðiþjófnað á þessu svæði og hafi hann þurft að hafa afskipti af veiðimönnum í ólöglegri veiði. Smári segir að veiðiþjófnaður almennt í Skagafirði sé mikið vandamál og virðist sem hugarfarið gagnvart þjófnaðinum sé þannig að mönnum finnist þetta í lagi. -Til þess að hægt sé að sporna við þessum veiðiþjófnaði þarf samstillt átak lögreglu og hagsmunaaðila og reyna að uppræta þetta ranga hugarfar, segir Smári.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.