Ömurlega svekkjandi tap gegn Ísfirðingum

Tindastóll tók á móti liði KFÍ frá Ísafirði í Síkinu í kvöld. Stuðningsmenn Stólanna voru bjartsýnir eftir ágætan sigur á Fjölni í Lengju-bikarnum á dögunum og framan var lið Tindastóls að spila fínan bolta. Fjórði leikhlutinn reyndist liðinu hins vegar dýrkeyptur því Stólarnir náðu aldrei takti og gestirnir laumuðust til að sigra og sló þögn á salinn þegar flautað var til leiksloka og 3ja stiga sigur gestanna staðreynd.

Það var fínn bragur á leik Tindastóls í byrjun leiks og Helgi Margeirs var í gamla góða hálfleiksgírnum og raðaði niður þristum eins og enginn væri morgundagurinn. Það virtist lítið í spilunum hjá gestunum en þeir hleyptu Stólunum ekki langt fram úr og eftir fyrsta leikhluta var staðan 25-23. Mikill hraði var áfram í leiknum í öðrum leikhluta og Stólarnir náðu góðum spretti, voru yfir 40-29 eftir að Helgi Rafn og Þröstur Leó fóru á kostum. Gestirnir svöruðu með næstu 8 stigum en staðan í hálfleik var 46-39.

Enn og aftur hófu heimamenn nýjan leikhluta með góðum leik. George Valentine kom Stólunum í 48-39 með troðslu. Þá gerðust þau undur og stórmerki að Isaac Miles hitti úr 3ja stiga skoti og kom Stólunum í 61-48, munurinn 13 stig, en þá fannst Momcilo Latinovic nóg komið og hóf að skora fyrir gestina nánast þegar honum sýndist. Tindastóll hafði þó sjö stiga forystu, 67-60, þegar fjórði leikhluti hófst en þá gekk hvorki né rak hjá heimamönnum. Staðan var orðin 69-68 eftir eina og hálfa mínútu og allt í járnum. Helgi Margeirs gaf heimamönnum smá andrými með góðum þristi, 76-72, en Spencer og Virijevic gerðu næstu 5 stigin fyrir gestina sem komust yfir í fyrsta sinn í leiknum þegar rétt rúmar fimm mínútur voru eftir. Leikur heimamanna var ekki góður það sem eftir lifði, liðið virkaði stressað og ólíkt því sem var á síðasta tímabili, þegar Miller tók af skarið undir lok leikja og tjaldaði nánast á vítalínu andstæðinganna, þá virtust Stólarnir ekki geta treyst neinum til að klára sóknirnar af skynsemi. Það endaði því með því að Stólarnir hálfpartinn köstuðu möguleikanum á sigri frá sér og Jón Hrafn Baldvinsson tryggði þeim sigur með tveimur vítum undir lokin. Lokatölur 83-86.

Leikmenn Tindastóls spiluðu ágætlega fyrstu 25 mínúturnar en svo fór allt til fjandans. Það er ekki mikið að ganga upp hjá könunum tveimur, þeir eru bara alls ekki að gleðja augað, eru ekki nógu afgerandi í leik liðsins og lítil stemning í kringum þá. Samtals höluðu þeir inn 25 stig, nýtingin hjá Valentine var ágæt en Miles hitti úr 3 skotum í 15 tilraunum. Helgi Margeirs gladdi augað með góðum leik og flottum þristum og eins og oft áður var Helgi Rafn að spila vel. Þröstur Leó sýndi frábæra takta en var helst til bráður þegar máli skipti í fjórða leikhluta.

Tapið í kvöld var ansi svekkjandi, sérstaklega í ljósi þess að liðið sýndi fína takta framan af leik og sennilega flestum sem á horfðu fundist Stólarnir miklu betri. En það þarf að spila vel lengur en fram í miðjan þriðja leikhluta og KFÍ með Latinovic og Virijevic í fararbroddi kenndu Stólunum lexíu í kvöld.

Stig Tindastóls: Helgi Rafn 16, Valentine 16, Helgi Freyr 14, Þröstur Leó 13, Miles 9, Rikki 7, Svabbi 4 og Hreinsi og Ingvi Rafn 2 hvor.

Fleiri fréttir