Opið hús hjá Hildi og Skapta á Hafsteinsstöðum
Í tilefni Laufskálaréttarhelgar býður fjölskyldan á Hafsteinsstöðum í opið hús á Hafsteinsstöðum föstudaginn 29. september milli kl 3 og 6. Á staðnum verða folaldshryssur, tryppi á ýmsum aldri ásamt hrossum í tamningu og þjálfun. Sýnd verða nokkur hross í reið milli kl . 5 og 6. Í tilkynningu frá þeim Hildi og Skapta eru allir velkomnir og ofan ákaupið ætla þau að bjóða upp á kaffi og kleinur.
Skapti hefur verið einkar sigursæll á keppnisbrautinni þetta árið en hann og Oddi frá Hafsteinsstöðum unnu Mývatn open mótið, bæði B flokkinn og töltið en einnig unnu þeir Mjúkísmótið sem haldið er árlega á Holtstjörn við Skörðugil.
Þá vann Skapti atvinnumannaflokk í firmakeppni Skagfirðings á Jórvík frá Hafsteinsstöðum,
Skapti og Oddi unnu B- flokk Félagsmóts Skagfirðings, Skapti og Hrafnista voru í 4. sæti í A flokki Félagsmóts Skagfirðings.
Á fjórðungsmótinu í Borgarnesi urðu Skapti og Oddi í 2. sæti með einkunnina 8.99 í B flokki, og með Hrafnistu í 4. sæti í A flokki. Þar var Skapti kosinn knapi mótsins af dómurum.
Skapti og Hrafnista urðu í 3. sæti í A flokki á Fákaflugi, Skapti og Blástör frá Hafsteinsstöðum í 3. sæti í B flokki á Einarsstöðum og á Metamótinu í Spretti í haust urðu Skapti og Oddi í 3. sæti B flokks.